Innlent

Altjón á efri hæðum geymsluhúsnæðisins í Miðhrauni

Kjartan Kjartansson skrifar
VÍS hefur haft forræði með svæðinu við Miðhraun 4 eftir stórbrunann 5. apríl. Nú er lokafrágangur svæðisins undirbúinn.
VÍS hefur haft forræði með svæðinu við Miðhraun 4 eftir stórbrunann 5. apríl. Nú er lokafrágangur svæðisins undirbúinn. Vísir/vilhelm
Leigjendur geymslna í húsnæði fyrirtækisins Geymslna í Miðhrauni sem brann í byrjun mánaðar hafa verið beðnir um að vitja eigna sinna í þessari viku. Aðeins þeir sem voru með geymslu á fyrstu hæð hússins er boðið en fyrirtækið segir að altjón hafi orðið á annarri og þriðju hæð hússins.

Í tilkynningu sem Geymslur sendu leigjendum og birti á vefsíðu sinni í gær kemur fram að Vátryggingafélag Íslands óski eftir því að þeir sem leigðu geymslur á 1. hæð hússins vitji þeirra og tæmi í þessari viku. Innihaldi geymslnanna verði fargað ef þess verði ekki vitjað innan tilskilins tíma.

Leigjendurnir þurfa að koma með sönnun um heimild til aðgangs að geymslunum þar sem þess gæti verið krafist. Skriflegt umboð þurfi frá leigutaka ef annar á að vitja geymslnanna fyrir þeirra hönd.

Opnað verður fyrir aðgang að geymslunum á 1. hæðinni frá kl. 16 til 19 í dag. Hægt verður að vitja geymslnanna á þeim tíma til og með föstudeginum. VÍS óskar þess að þeir sem eiga ekki kost á að koma á vettvang á fyrrgreindum tíma hafi samband við Geymslur ehf. hið fyrsta.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá því fyrir helgi að eldurinn í iðnaðarhúsnæðinu að Miðhrauni 4 hafi kviknað út frá rafmagni í húsakynnum Icewear.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×