Innlent

Flugvirkjar Gæslunnar í verkfall ef samningar nást ekki í dag

Gissur Sigurðsson skrifar
Ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar við Landspítalann. Flugvirkjar í áhöfnum þyrlanna, sem fara með í allar ferðir, mega ekki fara í verkfall, en það mega þeir sem vinna á jörðu niðri.
Ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar við Landspítalann. Flugvirkjar í áhöfnum þyrlanna, sem fara með í allar ferðir, mega ekki fara í verkfall, en það mega þeir sem vinna á jörðu niðri. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Ótímabundin vinnustöðvun flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni hefst klukkan hálf átta í fyrramálið ef ekki semst fyrir þann tíma. Reynt verður til þrautar að ná samkomulagi á fundi sem hefst klukkan eitt eftir hádegi, en talsvert mun bera í milli.

Samningafundur flugvirkja og ríkisins hjá Ríkissáttasemjara í gær bar ekki árangur og því var boðað til fundarins í dag. Ef ekki semst í dag mun vinnustöðvunin fljótlega hafa truflandi áhrif á flugstarfssemi Gæslunnar, að sögn yfirmanna þar á bæ.

 

Ekki fæst upp gefið hverjar kröfur flugvirkjanna eru, en þeir hafa að jafnaði miðað sig við flugvirkkja hjá Icelandair, en nýlega var samið við þá um átta prósenta hækkun auk einhverra aukakjara.

Flugvirkjar í áhöfnum þyrlanna, sem fara með í allar ferðir, mega ekki fara í verkfall, en það mega þeir sem vinna á jörðu niðri. Það er hins vegar mat stjórnenda Gæslunnar að þrátt fyrir það muni verkfallið, ef til kemur, mjög fljótlega fara að hafa truflandi áhrif á flugreksturinn. Hátt í tuttugu flugvirkjar vinna hjá Gæslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×