Íslenski boltinn

Atli: Sé ekki marga markmenn verja þetta skot

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það vakti athygli eftir leik Stjörnunnar og KR að hetja KR í leiknum, Atli Sigurjónsson, fékk ekki að koma í viðtöl til fjölmiðla eftir leikinn. Hann átti skrautlega innkomu því fyrir utan að skora sigurmark leiksins var hann einnig rekinn af velli.

„Ég var mjög peppaður. Var búinn að hita upp á fullu mjög lengi og ætlaði að keyra á það er ég kæmi inn á,“ segir Atli en hann skoraði sigurmarkið með glæsilegu langskoti.

„Tilfinningin var mjög góð um leið og ég hitti boltann. Það var líka góð tilfinning að sjá hann inni. Tómas Þór Þórðarson vildi meina að hann hefði átt að verja en ég sé ekki marga markmenn verja þetta skot.“

Atli var enn hátt uppi eftir markið er hann braut fólskulega af sér og var réttilega sendur í sturtu.

„Ég er ekki búinn að sjá þetta aftur en tilfinningin var sú að ég hefði bara farið upp í skallaeinvígi og svo hljóp ég bara til baka. Þá öskrar Brynjar Gauti á mig hvað ég sé að gera. Ég kíki þá til baka og sé hann liggja í jörðinni. Þá kom bara „úbbs“. Það getur vel verið að þetta sé rétt en það var enginn ásetningur í þessu hjá mér er ég hoppaði upp í boltann,“ segir KR-ingurinn en hvað með fjölmiðlabannið eftir leik?

„Ég hefði nú alveg getað tæklað það en þetta er regla og ég hef ekki mikla skoðun á því. Það eru aðrir sem stýra þeim málum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×