Skoðun

Garðabær gegn plastsóun

Guðfinnur Sigurvinsson skrifar

Garðabær hóf í mars flokkun á plasti og geta bæjarbúar nú sett það sér í poka og beint í tunnuna með almenna sorpinu en til undirbúnings fengu íbúar í Garðabæ í lok febrúar sendan bækling með upplýsingum um plastflokkunina. Sjálfstæðisflokkurinn í Garðabæ ætlar að vinna af festu gegn hvers kyns plastsóun í bæjarfélaginu, bæði í öllum rekstri á vegum bæjarfélagsins og með fræðslu og samvinnu við bæjarbúa og fyrirtæki í bænum. Við viljum að flokkun sorps verði áfram efld á næsta kjörtímabili og grenndargámar gerðir aðgengilegri og þeim fjölgað.

Plastmengun hafsins er ein alvarlegasta umhverfisváin sem við stöndum frammi fyrir á þessari öld og brýnt að grípa til aðgerða. Sú spá er nú á allra vitorði að árið 2050 verði meira af plasti en fiskum í hafinu. Síðan þessu var slegið fram hefur bresk rannsókn verið kynnt opinberlega sem segir að plastmengun hafsins muni þrefaldast næsta áratuginn ef ekkert verður að gert. Engar skyndilausnir munu koma fram yfir nótt sem losa okkur úr klípunni.

Íslendingar nota u.þ.b. 70 milljónir einnota plastpoka á ári en að meðaltali er hver plastpoki notaður í 25 mínútur. Það getur svo tekið á bilinu 100 til 500 ár fyrir plastið að brotna niður í náttúrunni. Allt það plast sem hefur verið framleitt frá upphafi eða í heila öld er því í reynd enn til í einni eða annarri mynd, s.s. í landfyllingum eða í hafinu. Og fyrir Íslendinga sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi er það alvarlegt umhugsunarefni að um 8% allra plastpoka endar í hafinu en það jafngildir um 5 milljónum plastpoka á Íslandi árlega.

Þegar plast brotnar niður í agnir sem eru innan við 5 mm að stærð skilgreinum við það sem örplast. Plast er feitt efni og virkar eins og segulstál á eiturefni í umhverfinu en örplastið á greiða leið í lífverur sjávar, s.s. í gegnum tálkn fiska, og geta eiturefni borist þannig upp fæðukeðjuna. Við vitum að efnið plast er hormónatruflandi og hefur áhrif á vöxt og frumur. Við vitum líka að lífverur í hafinu borða plast í stað fæðu og rýrna fyrir vikið eða deyja. Einnig geta þær flækst í því. Þær upplýsingar sem við höfum um framleiðslu plasts segja okkur að efnið er ekki vistvænt, það er að meginuppistöðu unnið úr olíu og öðrum mengandi efnum og þar af leiðandi á plast ekki heima í náttúrunni, hvort sem er til lands eða sjós.

Hvað getum við gert?
Við getum öll lagt okkar risasmáa til í baráttunni en uppsprettur plastmengunar eru margs konar. Um sumar getur almenningur engu breytt en aðrar geta neytendur hæglega kveðið í kútinn. Velta má t.d. fyrir sér hversu margar agnir af örplasti verði til við niðurbrot á einum plastpoka? Eða sogröri? Sennilega skipta þær milljónum á milljónir ofan agnirnar af örplasti sem hver og einn getur komið í veg fyrir að hafni í hafinu með því að draga verulega úr eða hætta notkun á einnota burðarpokum úr plasti, sogrörum, drykkjarmálum og einnota hnífapörum úr plasti, svo eitthvað sé nefnt. Ekkert af þessu er nauðsynlegt, það eru til fjölnota lausnir og þetta er allt spurning um að breyttar neysluvenjur. Dæmi eru um íslenskar verslanir sem bjóða ekki upp á burðarplastpoka og enginn kvartar yfir því, þrátt fyrir að fólk geri þar magninnkaup.

Eina leiðin til að draga úr plastsóun og koma í veg fyrir plastmengun fæst með hnattrænu átaki á öllum stjórnsýslustigum, meðal almennings, fyrirtækja og félagasamtaka. Sveitarfélög ásamt ríki eiga að vera hryggjarstykkið í þessari þróun. Garðabær á að vera í hópi þeirra íslensku sveitarfélaga sem best vinna gegn plastsóun, það er okkar vilji og metnaður. Okkar vegferð er hafin og við óskum eftir stuðningi og góðum samstarfsvilja frá bæjarbúum, félagasamtökum og fyrirtækjum í bænum. Vinnum þetta saman. Árið 2050 verður innan líftíma fjölmargra sem þetta lesa, við erum ekki aðeins að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir – við verðum að vernda hafið fyrir okkur sjálf.

Höfundur skipar 9. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og skrifaði „Plastmengun í hafi – Hvað er til ráða?“ meistararitgerð í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×