Umfjöllun og viðtöl: Víkingur - Valur 0-0 | Meistararnir náðu ekki að skora í Víkinni

Magnús Ellert Bjarnason í Víkinni skrifar
vísir/eyþór
Víkingur og Valur skildu jöfn í 2. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Leiknum lauk með markalausu jafntefli en hann fór fram á heimavelli Víkings, hinum svokallaða „Velli hamingjunnar”.

Völlur hamingjunnar kemur vægast sagt illa undan vetri og því var í raun nánast ómögulegt fyrir liðin að spila fallega knattspyrnu. Því fengum við leik sem var ekki mikið fyrir augað og þá er vægt til orða tekið.

Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik og leit fyrsta færi leiksins ekki ljós fyrren á 21. mínútu þegar að Eiður Aron, hafsent í liði Vals, gerði vel í að bjarga á línu frá Vladimir Tufegdzic.

Liðin sköpuðu sér lítið eftir þetta og var Haukur Páll næst því að skora fyrsta mark leiksins. Það hefði hins vegar verið í vitlaust mark en Anton Ari, markmaður Vals, þurfti að hafa mikið fyrir því að verja frá Hauk á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar hann skallaði klaufalega í átt að eigin marki.

Staðan var því markalaus þegar að liðin gengju til búningsherbergja eftir ákaflega tíðindalítinn fyrri hálfleik, sem einkenndist af miklum barning en sex gul spjöld litu dagsins ljós á fyrsta hálftíma leiksins.

Ekki var síðari hálfleikurinn meira fyrir augað. Helst má nefna tilkall beggja liða til þess að fá vítaspyrnu, en heimamenn í Víking virtust eiga nokkuð til síns máls þegar að Alexander Freyr fell í teignum eftir baráttu við Eið Aron á 51 mínútu leiksins. Stuttu áður hafði Valur fengið aukaspyrnu við vítateigslínu Víkings, sem Guðjón Pétur fór illa með. Dómari leiksins var á því máli að brotið hefði átt sér stað fyrir utan teig, við mikla óanægju Valsara.

 

Gestirnir í Val voru líklegri til að stela sigrinum síðustu mínútur leiksins. Pressuðu þeir stíft og sköpuðu sér ágætis færi en höfðu ekki erindi sem erfiði. Lokatölur því 0-0 og virtust bæði lið sátt með stigið úr því sem komið var. 



Af hverju varð jafntefli niðurstaðan?


Eins og kom fram að ofan einkenndist leikurinn af miklum barning og litu fá færi dagsins ljós. Þá vörðu markmenn liðanna vel í þau fáu skipti sem reyndi á þá. Liðunum gekk illa að fóta sig á þungum Víkingsvellinum og var markalaust jafntefli alltaf líklegasta niðurstaðan.

Hverjir stóðu upp úr?


Sölvi Geir stóð uppúr í liði Víkings í dag og var réttilega valinn maður leiksins af skrautlegum vallarþuli Víkinga. Var þetta fyrsti leikur Sölva í Víkingstreyjunni í 14 ár og lofar spilamennska hans góðu fyrir sumarið. Stýrði hann þéttri vörn heimamanna eins og herforingi og tapaði vart skallabolta.

Í liði gestanna má helst nefna markmanninn Anton Ara, sem var traustur í sínum aðgerðum og varði nokkrum sinnum vel. Þá átti eyjamaðurinn Eiður Aron góðan leik í miðri vörn Vals.

 

Hvað gekk illa?


Liðunum gekk afskaplega illa að spila boltanum sín á milli eins og komið hefur fram og skal engan undra. Völlur hamingjunnar, sem er meira gulur en grænn, bauð einfaldlega ekki upp á fallega knattspyrnu í kvöld. 



Hvað gerist næst?


Eftir sex daga, sunnudaginn 13. maí, taka íslandsmeistararnir í Val á móti Fylki í kvöldleik sem hefst kl 20:00. Víkingur á leik daginn eftir þegar liðið heimsækir Stjörnuna á Samsung-völlinn í 3. umferð deildarinnar. Hefst sá leikur kl 19:15.

Ólafur Jóhannesson: Það á að spila fótbolta við bestu mögulegu aðstæður

„Ég er bara ánægður að fá stigið. Við vorum að spila við erfiðar aðstæður og ég fagna því að við höldum markinu hreinu. Auðvitað hefði ég viljað vinna leikinn en eitt stig er ágætt úr því sem komið er,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, sem hafði ekki mikið að segja eftir leikinn í kvöld.

Spurður hvort að lið sitt hefði átt að fá víti í síðari hálfleik þegar að dómari leiksins var á því máli að brotið hefði verið á Sigurði Egil fyrir utan vítateig, sagðist Ólafur ekki hafa séð atvikið. Myndavélar Stöð 2 Sport hlytu hins vegar að hafa náð atvikinu á myndband.

„Ég náttúrulega sá það ekki. Þið hljótið að sjá það frekar á þessum myndavélum ykkar hvort hann var fyrir innan eða utan teig. Vonandi fyrir dómarann var hann fyrir utan.”

Ólafur var ekki sáttur við það að leikurinn hafi verið spilaður á heimavelli Víkings og taldi að Víkingur hefði átt að þiggja tilboð Vals um að leikurinn yrði spilaður á Origo vellinum, heimavelli Vals.

„Auðvitað á að spila fótbolta við bestu mögulegu aðstæður. Við buðum Víking upp á það að skipta á leikjum og spila leikinn á gervigrasinu á Hlíðarenda en þeir þáðu það ekki”, sagði Ólafur að lokum.

Logi Ólafsson: Völlurinn ekkert verri en hann var fyrir viku síðan

„Þetta var bara mikil barátta en auðvitað ekki fallegur fótbolti. Ég er ánægður með framlag minna manna og vinnusemi. Menn spila bara úr því sem þeir fá í hendurnar. Völlurinn bauð ekki uppá neitt meira en þetta og mér sýndist bæði lið taka mið af því. Þetta var jafn leikur og jafntefli er sennilega ásættanleg niðurstaða,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Víkings, sem var nokkuð ánægður með stigið í leikslok.

Logi var sammála blaðamanni Vísis að Sölvi Geir hefði staðið uppúr í liði Víkings í kvöld, eftir 14 ára fjarveru úr íslenska boltanum.

 

„Sölvi er auðvitað frábær leikmaður og gríðarlega þýðingarmikill fyrir okkar lið með alla þessa reynslu. Það er mikilvægt fyrir ungu leikmennina í okkar liði að fá að læra af manni eins og Sölva.“

Logi furðaði sig á því af hverju það væri svona mikið talað um ástand vallarins og taldi það algjörlega óþarft fyrir Víking að þiggja áðurnefnt boð Vals um að leikurinn yrði spilaður á Origo gervigrasvellinum.

„Ég hef vitneskju um að Valur bauð okkur að þessi leikur færi frekar fram á gervigrasvellinum þeirra. Þessi völlur er hins vegar ekkert verri núna en hann var fyrir viku og þá var spilað. Ég veit ekki af hverju það hefði þurft að skipta á leikjum eins og Valur vildi. Ég bara skil það ekki, “ aagði Logi að lokum.

Sölvi Geir : Ég var drullustressaður

Sölvi Geir Ottósen setti á sig Víkingstreyjuna í fyrsta skipti í 14 ár í kvöld þegar að liðið tók á móti íslandsmeisturum Vals. Var hann óumdeilanlega maður leiksins, steig varla feilspor og sýndi af hverju hann var í atvinnumennskunni og íslenska landsliðinu svo lengi.

Í viðtali við Vísi eftir leikinn viðurkenndi hann að hann hefði verið stressaður að spila á ný á Víkingsvellinum eftir svo langa fjarveru.

„Tilfinningin er yndisleg. Ég verð samt að viðurkenna að ég var drullustressaður, en það er bara af hinu góða held ég. Það var mikil tilhlökkun að spila fyrir framan aðdáendur Víkings aftur. “

Sölvi var sáttur með hvernig fór í endurkomu sinni í íslenska boltanum. 

„Ég er sáttur við að halda hreinu fá stig gegn íslandsmeisturunum. Mér fannst við spila eins vel og völlurinn bauð uppá og ég get ekki verið annað en sáttur. Mér líst vel á sumarið í Víkinni.”

„Við áttum eftir að stilla okkur af á undirbúningstímabilinu en við höfum náð að gera það núna. Varnarlínan hefur verið öflug og það er mjög erfitt fyrir lið að komast í gegnum okkur. Ég er því bjartsýnn að gengi okkar verði gott í sumar, “ sagði Sölvi að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira