Erlent

Enn enginn grunaður vegna taugaeitursárásar

Sigurgeir Ingi Þorkelsson Eyvinds skrifar
Breskir hermenn framkvæma hreinsun í nálægð við staðinn þar sem Skripal-feðginin fundust meðvitundarlaus.
Breskir hermenn framkvæma hreinsun í nálægð við staðinn þar sem Skripal-feðginin fundust meðvitundarlaus. Vísir ( Getty
Enn liggur enginn undir grun vegna taugaeitursárásar sem gerð var í Salisbury í Bretlandi þann 4. mars síðastliðinn. Sir Mark Sedwill, þjóðaröryggisráðgjafi Bretlands, upplýsti um þetta í dag þegar að hann kom fyrir varnarmálanefnd þingsins.

Árásin beindist gegn Sergei Skripal, sem njósnaði fyrir bresk stjórnvöld í Rússlandi á tíunda áratug síðustu aldar og fram að því að hann var handtekinn árið 2004. Skripal komst svo til Bretlands árið 2010, þegar Bretland og Rússland skiptust á njósnurum, og hefur verið þar síðan.

Eitrað var fyrir Skripal með því að smyrja eitri á hurðarhún heimilis hans og hefur hann síðan þá legið inni á sjúkrahúsi. Júlía Skripal, dóttir hans, varð einnig fyrir eitrun en hún hefur verið útskrifuð af sjúkrahúsi. Ekki er þekkt hver langtímaáhrif eitrunarinnar muni vera.

Sedwill upplýsti á sama tíma að gripið hafi verið til aðgerða til að auka öryggi breskra ríkisborgara sem eru í svipaðri stöðu og Skripal, en Skripal er ekki fyrsti maðurinn á flótta undan rússneskum stjórnvöldum sem eitrað er fyrir.

Alexander Litvinenko lést í Bretlandi árið 2006 eftir að eitrað hafði verið fyrir honum með geislavirku efni. Litvinenko var fyrrverandi starfsmaður rússnesku leyniþjónustunnar og hafði sex árum fyrr flúið til Bretlands undan rússneskum stjórnvöldum.

 


Tengdar fréttir

Rússar hafna niðurstöðunum alfarið

Stofnunin um bann við efnavopnum staðfesti að Novichok-taugaeitri hefði verið beitt gegn Sergei og Júlíu Skrípal. Bretar segja nú deginum ljósara að rússnesk yfirvöld hafi beitt efnavopni í Salisbury. Rússar hafna niðurstöðum rannsóknar alfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×