Erlent

Bandaríkjamenn bíða með barneignir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bandaríkjamönnum mun þó ekki fækka á næstunni.
Bandaríkjamönnum mun þó ekki fækka á næstunni. Vísir/Getty
Fæðingartíðni í Bandaríkjunum hefur ekki verið lægri í 30 ár. Telja vísindamenn það til marks um að Bandaríkjamenn séu farnir að bíða lengur með barneignir en þekkst hefur til þessa

Rúmlega 3,85 milljón börn fæddust í Bandaríkjunum í fyrra en færri börn hafa ekki fæðst vestanhafs á einu ári síðan árið 1987. Stærsta ástæðan er rakin til færri barneigna meðal unglinga og kvenna á þrítugsaldri. Hins vegar fjölgaði barneignum kvenna á aldrinum 40 til 44 ára. Fjölgunin var þó ekki nógu mikil til að vega upp á móti fækkuninni í fyrrnefndu aldurshópunum.

Það var þó ekki aðeins fæðingartíðnin, hversu mörg börn fæðast fyrir hverja þúsund íbúa, sem var lág í Bandaríkjunum í fyrra. Frjósemisstuðull bandarískra kvenna, mælikvarðinn á það hvað þær munu eignast mörg börn að meðaltali á lífsleiðinni, var 1.76 á síðasta ári. Hann hefur ekki verið jafn lágur síðan árið 1978.

Lægri fæðingartíðni er, á vef breska ríkisútvarpsins, rakin til aukinnar velmegunar vestanhafs. Þrátt fyrir það telja vísindamenn litlar líkur á því að Bandaríkjamönnum muni fækka á næstu áratugum eða að aldurssamsetning þjóðarinnar kúvendist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×