Innlent

Forgangsatriði að laga flug- og vegasamgöngur

Höskuldur Kári Schram skrifar
Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir að öflug ferðaþjónusta sé forsenda þess að hægt sé að halda úti byggð á öllu Norðurlandi. Hún segir það vera forgangsatriði að laga flug- og vegasamgöngur á svæðinu.

Tæplega 580 þúsund erlendir ferðamenn heimsóttu Norðurland á síðasta ári og hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum. Heimamenn telja mögulegt að efla ferðaþjónustu á svæðinu enn frekar.

Arnheiður Jónsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir ferðaþjónustuna á svæðinu glíma við mikla árstíðarsveiflu þó nokkuð hafi áunnist á undanförnum árum.

„Innan við 20 prósent af þeim ferðamönnum sem koma til Íslands fara norður yfir vetrartímann og það byggir á samgöngum. Það er okkar stóra áskorun núna að laga samgöngur á landi og í lofti,“ segir Arnheiður.

Hún segir að tækifærin séu mikil í ferðaþjónustunni.

„Ég held að ferðaþjónustan sé algjört lykilatriði ef við ætlum að halda úti byggð á öllu Norðurlandi vegna þess að ferðaþjónustan getur byggst upp á öllum stöðum og í öllum bæjarfélögum. Þar byggist þá samhliða upp góð þjónusta sem að íbúar geta nýtt sér vegna þess að þjónustan er ekki bara fyrir ferðamenn heldur kemur aftur gróska í verslunarrekstur, veitingarekstur og ýmis konar afþreyingu. Þannig að án ferðaþjónustunnar þá veit ég ekki alveg hvert við værum að stefna,“ segir Arnheiður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×