Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson eru í lokahóp Heimis Hallgrímssonar sem fer á HM í Rússlandi þrátt fyrir meiðsli, enda lykilmenn í íslenska landsliðinu síðustu ár.
Gylfi meiddist á hné í mars og hefur ekki spilað fótboltaleik síðan. Sam Allardyce, knattspyrnustjóri hans hjá Everton, sagði í morgun að enn væri langt í Gylfa.
Þegar Heimir var spurður út í stöðuna á Gylfa sagði hann Hafnfirðinginn vera byrjaðan að hlaupa og spretta.
„En við vitum að það getur komið inn bakslag í endurhæfinguna. Við erum tilbúnir í hvað sem er.“
Heimir sagðist hafa heyrt í fyrirliðanum Aroni Einari Gunnarssyni í gær og hann hafi verið jákvæður. Aron gekkst undir aðgerð á hné fyrir tæpum tveimur vikum.
„[Hann] er að fara til Katar í endurhæfingu. Þeir eru með bestu sérfræðingana þar. Hann kemur til okkar 30. maí ásamt leikmönnum í Skandinavíu,“ sagði Heimir á blaðamannafundi í Laugardalnum í dag.
Nánar frá fundinum má sjá hér.

