Erlent

Fóstureyðingar gætu fellt ríkisstjórn May og sameinað Írland á ný

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Mikill meirihluti Íra fagnaði niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar og hún gæti á endanum leitt til endursameiningar landsins að mati fréttaskýrenda.
Mikill meirihluti Íra fagnaði niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar og hún gæti á endanum leitt til endursameiningar landsins að mati fréttaskýrenda. Vísir/getty
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, er komin í ómögulega stöðu eftir að mikill meirihluti Íra kaus í þjóðaratkvæðagreiðslu að afnema bann við fóstureyðingum. Fóstureyðingar eru enn bannaðar á Norður-Írlandi, sem er undir breskri stjórn, og May getur ekki breytt því án þess að fella eigin ríkisstjórn.

Ástæðan er sú að breski Íhaldsflokkurinn neyddist til að semja við Lýðræðislega sambandsflokkinn, DUP, til að koma á ríkisstjórn eftir síðustu kosningar. Sambandsflokkurinn á Norður-Írlandi er gríðarlega íhaldssamur og byggir á strangri mótmælendatrú og andúð á kaþólikkum.

Það er nánast útilokað að Sambandsflokkurinn myndi samþykkja breytingar á lögum um fóstureyðingar, sérstaklega af því að svarnir andstæðingar þeirra í Sinn Fein eru fylgjandi slíkum breytingum.

Sinn Fein var upphaflega hinn pólitíski armur írska lýðveldishersins, IRA. Flokkurinn hallar töluvert til vinstri og styður lögleyðingu fóstureyðinga og full mannréttindi hinsegin fólks, þrátt fyrir að vera að nafninu til kaþólskur flokkur.

Bæði málefni hinsegin fólks og fóstureyðingar eru sem eitur í beinum sambandssinna en það situr bandamenn þeirra í Lundúnum í afar vandræðalega stöðu. Norður-Írar eru nú búnir að dragast langt aftur úr bæði öðrum Bretum og Írum hvað varðar þessi mál og aukinn þrýstingur er á stjórnvöld að gera breytingar.

Í leiðara í breska dagblaðinu The Guardian í dag er því meira að segja spáð að þetta geti leitt til sameiningu Írlands. Leiðtogar Sambandsflokksins séu algjörlega andsnúnir öllum málamiðlunum og líti réttilega svo á að þeir hafi öll spil á hendi. Þeir séu eins og drukkinn gestur í samkvæmi ríkisstjórnarinnar, á endanum þurfi að vísa þeim á dyr eða sætta sig við algjöra upplausn sem gæti endað með endalokum breskra yfirráða á Írlandi.


Tengdar fréttir

Theresa May óskar Írum til hamingju

May sagði að kosningarnar væru glæsileg leið til þess að sýna hvernig lýðræðið virkar með skýrum og ótvíræðum niðurstöðum.

Gerð nýrra laga hefst í vikunni

Tveir af hverjum þremur kusu með því að fella stjórnarskrárviðauka úr gildi sem bannar fóstureyðingar. Fóstureyðingar hafa verið ólöglegar á Írlandi frá 1983. Mikill fjöldi kom saman til að fagna niðurstöðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×