Erlent

Rússneskur ólígarki sækist eftir ísraelsku ríkisfangi

Kjartan Kjartansson skrifar
Abramóvitsj er gyðingur og getur því fengið ríkisborgararétt í Ísrael.
Abramóvitsj er gyðingur og getur því fengið ríkisborgararétt í Ísrael. Vísir/EPA
Róman Abramóvitsj, rússneski ólígarkinn sem á meðal annars enska knattspyrnuliðið Chelsea, er farinn til Ísraels þar sem hann getur fengið ríkisborgararétt. Auðkýfingurinn hefur átt í erfiðleikum með að fá landvistarleyfi sitt á Bretlandi endurnýjað vegna spennu í samskiptum Bretlands og Rússlands.

Innflytjendayfirvöld í Ísrael segja við breska ríkisútvarpið BBC að Abramóvitsj hafi farið í viðtal í ísraelska sendiráðinu í Moskvu í síðustu viku. Talsmaður auðjöfursins vildi hins vegar ekki staðfesta að hann hefði þegar fengið ríkisborgararétt. Reuters-fréttastofan hefur eftir ísraelskum fjölmiðlum að Abramóvitsj hafi þegar fengið ríkisborgararétt. Hann ætli sér að flytja til Ísrael og hann hafi keypt sér húsnæði þar.

Abramóvitsj gat ekki verið viðstaddur sigur Chelsea í ensku bikarkeppninni fyrr í þessum mánuði vegna vandræðanna með landvistarleyfið. Hann er gyðingur og getur því fengið ríkisborgararétt í Ísrael. Hann yrði þá ríkasti maður landsins.

Ísraelskt vegabréf gerði Abramóvitsj kleift að dveljast í Bretlandi til skamms tíma án vegabréfaáritunar.

Grunnt hefur verið á því góða á milli breskra og rússneskra stjórnvalda eftir að eitrað var fyrir rússneskum fyrrverandi njósnara í bænum Salisbury í mars. Bresk stjórnvöld saka ríkisstjórn Vladímírs Pútín um að hafa staðið að tilræðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×