Samkvæmt útgönguspám verður breytingin á stjórnarskrá landsins samþykkt með 69,4% atkvæða en 30,6% eru andvígir breytingunum.
Kjörstaðir eru lokaðir og talning hefst ekki fyrr en klukkan 9 í fyrramálið að staðartíma. Að því er fram kemur á vef CNN má gera ráð fyrir því að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar liggi fyrir síðdegis á morgun.
RTÉ exit poll on the Eighth Amendment projects: Yes 69.4% No 30.6%
— RTÉ (@rte) May 25, 2018
Stjórnarskrárákvæðið umdeilda sem kveður á um bann við fóstureyðingum var tekið upp árið 1983 en síðan þá hafa verið gerðar ýmsar breytingar þar á. Ákvæðinu var til dæmis breytt árið 2013 í frelsisátt þannig að læknar hafa síðan þá getað framkvæmt fóstureyðingar ef líf móðurinnar var í hættu.
Steinunn Rögnvaldsdóttir, kynjafræðingur og annar tveggja höfunda bókarinnar Rof: Frásagnir kvenna af fóstureyðingum, segir, í samtali við Vísi, að það sé mikið í húfi fyrir írskar konur.
Hún segir bannið koma verst niður á jaðarsettum konum, eins og innflytjendum og fátækum konum sem eiga erfitt með að ferðast til annarra landa til fara í fóstureyðingu.