Innlent

Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðar við leitina í Ölfusá

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gert er ráð fyrir að leitað verði fram á miðjan dag.
Gert er ráð fyrir að leitað verði fram á miðjan dag. Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson
Þyrla Landhelgisgæslunnar tekur þátt í leitinni við Ölfusá í dag en um áttatíu björgunarsveitarmenn leita nú mannsins sem féll í ána í gærnótt.

Sjá einnig: Áfram unnið út frá þekktum fundarstöðum

Þyrlan var nýkomin á svæðið þegar Vísir náði tali af Gunnari Inga Friðrikssyni hjá aðgerðastjórn björgunarsveita í Árnessýslu skömmu eftir hádegi. „Hún er að skoða svæðið og verður kannski aftur seinna í dag,“ segir Gunnar en þyrlan var einnig kölluð út rétt eftir að lögreglu barst tilkynning um að maðurinn hefði farið í ána. Hún sneri þó aftur til Reykjavíkur skömmu síðar og var ekki notuð frekar í gær.

Gunnar segir ekkert nýtt að frétta úr leitinni þó að aðgerðin sjálf gangi ágætlega. Um áttatíu manns eru nú að leita í og við Ölfusá, bæði í gönguhópum og á bátum. Þá gerir Gunnar ráð fyrir að leitað verði fram á miðjan dag.

„Þá klárum við líklega öll verkefni sem við erum með. Eftir það þarf svo að ákveða hvað við gerum næst. Það sem er þó að hamla okkur svolítið er hvað það er mikið vatn í ánni, það er búið að vera svo mikil rigning og vatnsmagnið meira en venjulega.“

Að því sögðu eru aðstæður þó tiltölulega góðar. Björgunarmenn hafa til að mynda geta notað dróna við leitina í dag en það var ekki hægt í gær sökum slæmra veðurskilyrða.

Lögreglan á Selfossi fékk tilkynningu um að maður hefði farið fram af Ölfusárbrú upp úr klukkan þrjú aðfararnótt sunnudags og var strax sett í gang mikil björgunaraðgerð björgunarsveita með aðstoð Brunavarna Árnessýslu, sjúkraflutningamönnum og þyrlu Landhelgisgæslunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×