Innlent

Leitaraðstæður við Ölfusá betri í dag en í gær

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá leit í Ölfusá í gær.
Frá leit í Ölfusá í gær. Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson
Leit hefst að nýju í og við Ölfusá um klukkan 9 samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi. Leitað er að manni sem fór í ána í gærnótt en um níutíu björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni í gær.

Sjá einnig: Níutíu björgunarsveitarmenn leita mannsins í Ölfusá

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við Vísi að plan fyrir daginn í dag hafi verið gert í gær og búist er við að því verði fylgt.

Hann segir leitaraðstæður í dag töluvert betri en í gær. Veður hefur róast en mikil úrkoma, hvassviðri og vatnavextir í ánni gerðu leitarmönnum erfitt fyrir á hvítasunnudag.

Þá hefur enn ekkert fundist sem gæti komið leitarmönnum á sporið, að sögn Odds, en þó liggi fyrir að maðurinn sé í ánni.

Verkefni leitarmanna í gær voru fjölbreytt en gönguhópar gengu upp og niður með ánni, einhverjir fóru út á bátum og sæþotum og þá óðu sérhæfðir björgunarhópar út í grynningar. Búast má við að svipaður háttur verði hafður á við leitina í dag.

Mikið álag var á viðbragðsaðilum á Suðurlandi í gær en á meðan leitin við Ölfusá stóð yfir fengu viðbragðsaðilar annað útkall laust fyrir hádegi um að tveir erlendir ferðamenn hefðu fallið í Villingavatn, syðst af Þingvallavatni. Ferðamennirnir, karl og kona, eru í lífshættu á Landspítalanum.

Tólf björgunarsveitir komu að leitinni í gær, þ.á.m. björgunarsveitir frá Akranesi, Borgarnesi og höfuðborgarsvæðinu.Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×