Erlent

„Þetta var augnablik fullkominnar skelfingar“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Claire heilsast vel.
Claire heilsast vel. Mynd/Claire Nelson.
Nýsjálenski ferðamaðurinn Claire Nelson lenti í heldur óskemmtilegri lífsreynslu er hún var á göngu í eyðimörkinni í Suður-Kaliforníu á dögunum. Hún hélt daga sína talda eftir að hafa fallið og brotið mjöðmina í óbyggðunum.

Nelson var á ferð í Joshua Tree þjóðgarðinum. Lagði hún af stað eldsnemma í göngu. Áætlaði hún sex tíma í gönguna og var hún ágætlega útbúin, með nóg af vatni. Lét hún vita af ferðum sínum í þjónustumiðstöð áður en hún lagði af stað.

Fyrstu þrjá kílómetra göngunnar fylgdi hún gönguslóðinni líkt og hún ætlaði sér. Þegar hún var hins vegar að nálgast fimm kílómetrana áttaði hún sig á því að hún væri komin af gönguslóðinni.

Klifraði hún því upp á stein til þess að hvíla sig og átta sig á því hvert hún ætti að fara.

„Það var þegar ég ætlaði að klifra niður steininn sem ég rann og datt niður,“ sagði Nelson í samtali við BBC.

„Ég vissi að það væri ekkert sem ég gat gert en þetta gerðist samt svo hægt.“

Mikil hræðsla og örvænting

Nelson áttaði sig strax á því að eitthvað slæmt hefði gerst þar sem hún fann fyrir miklum sársauka og gat ekki hreyft sig. Síðar kom í ljós að hún hafði brotið mjöðm.

Ekkert samband var á símanum hennar og því gat hún ekki hringt í neyðarlínuna. Hræðsla og örvænting fyllti huga Nelson.

„Ég hugsaði: Ég trúi ekki að ég sé í þeirri aðstöðu að ég sé hérna ein, enginn veit að ég er hérna, ég er búin að slasa mig og ég get ekki haft samband við neinn,“ sagði Nelson. „Þetta var augnablik fullkominnar skelfingar.“

Skipti deginum upp í verkefni

Nelson var þó fljót að ná áttum og fór að íhuga hvernig hún gæti hámarkað möguleika sína á því að lifa af. Það eina sem hún hafði stjórn á í þessum aðstæðum væri hversi lengi hún gæti tórað.

Hún áttaði sig á því að hún þyrfti að spara vatn og finna leið til þess að koma sér úr sólinni. Hún notaði prik og plastpoka til þess að búa sér til sólskýli og þegar hún kláraði vatnið daginn eftir fallið drakk hún eigin þvag til þess að komast af.

Þá hélt hún sjálfri sér upptekinni og skipti deginum upp í verkefni. Þá var tilhugsunin um ástvini, uppáhalds mat og staði eitthvað sem hélt í henni lífinu.

„Ég tók upp stutt myndbönd til þess að ganga úr skugga um að ef einhver myndi finna mig myndi vera ljóst hvað hafði komið fyrir,“ sagði Nelson. Alls var hún fjóra daga og þrjár nætur í eyðimörkinni.

Joshua Tree þjóðgarðurinn er vinsæll áfangastaður ferðamanna.Vísir/Getty

Öskraði á hjálp fyrri hluta dagsins

Fyrri hluti dagsins öskraði hún á hjálp en síðari hluta dagsins nýtti hún í að halda sér frá sólinni. Segir hún að fjórði og síðasti dagurinn áður en henni var bjargað hafi verið sá erfiðasti.

„Það var sérstaklega heitt og ég átti í miklum erfiðleikum með að halda í vonina,“ sagði Nelson. „Ég sofnaði og vaknaði til skiptis og hugsaði með mér hversu lengi ég gæti haldið þetta út.“

Það var þá sem hún heyrði í þyrlu. Byrjaði hún að öskra af lífs og sálarkröftum en það var ekki fyrr en hún gat veifað prikinu með plastpokanum sem hún nýtti sem sólskýli sem hún náði athygli björgunarmannanna.

Nelson liggur nú á spítala þar sem hún er að jafna sig en í samtali við BBC segir hún að þrátt fyrir að endurhæfingin gangi vel hafi hún töluverðar áhyggjur af þeim reikningum sem safnast hafa upp vegna sjúkrahúsvistunarinnar.

„Þegar reikningurinn kemur þá veit ég ekki hvað verður á honum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×