Fótbolti

Aron Einar: Í hausnum á mér að ég nái fyrsta leik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron Einar á Laugardalsvelli í dag.
Aron Einar á Laugardalsvelli í dag. vísir/vilhelm
Eftir langa meðhöndlun vegna meiðsla erlendis þá er landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson kominn heim. Hann ætlar sér að ná opnunarleik Íslands á HM gegn Argentínu.

Það er rétt rúmur mánuður síðan Aron Einar fór í aðgerð vegna meiðsla á hné. Hann hefur síðan meðal annars dvalið í endurhæfingu í Katar og er á réttri leið.

„Þetta er búið að vera strembið en alveg þess virði að vera kominn í gang. Mér líður vel og klárlega þess virði að fara til Katar í tvær vikur. Þetta gerði mér gott andlega sem líkamlega. Þetta var eitthvað sem ég þurfti að gera,“ segir Aron en hann kom til landsins í gær og mun ekki æfa með landsliðinu í dag.

„Formið er ekkert frábært en ég hef haldið mér við á hjóli og öðru. Ég er mjög ánægður hvar ég stend í dag miðað við hvar ég gæti verið. Ég hlakka til að halda áfram að æfa og koma mér í gang,“ segir fyrirliðinn.

„Ég sé til hvað ég geri mikið á æfingu á morgun. Við tökum þetta hægt og rólega og spýtum í er á þarf að halda.“

Er Aron meiddist fyrst sáu margir fyrir sér að hann myndi ekki ná leiknum gegn Argentínu þann 16. júní. Fyrirliðinn er bjartsýnn á að ná leiknum.

„Það er í hausnum á mér að ég nái fyrsta leik. Það er undir sjálfum mér komið. Ég þarf að vinna mikið í þessu og er reiðubúinn í það. Ég er enn á plani og ánægður hvar ég er í dag,“ segir Akureyringurinn en síðustu vikur hafa eðlilega reynt á hann andlega líka.

„Það er búið að vera erfitt. Ég hef oft sest niður og hugsað að ég sé ekki að fara að ná þessu. Það er partur af því. Gott að vita af öllum sem eru tilbúnir að hjálpa. Það er gott að eiga góða að og skiptir öllu máli þegar maður er niðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×