Innlent

Skora á ríkisstjórnina að „gera upp skuld sína við Þjóðkirkjuna“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kópavogskirkja er innan Reykjavíkurprófastskjördæmis eystra, sem jafnframt er stærsta prófastsdæmi landsins.
Kópavogskirkja er innan Reykjavíkurprófastskjördæmis eystra, sem jafnframt er stærsta prófastsdæmi landsins. VÍSIR/STEFÁN
Héraðsfundur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, sem haldinn var í Guðríðarkirkju þann 30. maí síðastliðinn, skorar á ríkisstjórnina að leiðrétta sóknargjöld í þá upphæð sem þau eiga að vera samkvæmt lögum og „gera upp skuld sína við Þjóðkirkjuna vegna skerðingar sóknargjalda undanfarin tíu ár.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá héraðsfundinum, sem jafnframt er aðalfundur prófastsdæmisins.

Í tilkynningu segir að ekki sé von á leiðréttingu á „þeirri gríðarlegu skerðingu sóknargjaldsins sem viðgengist hefur frá árinu 2009.“ Þá hafi skerðingin leitt til þess að sóknargjaldið sé nú 931 króna á mánuði fyrir hvern meðlim en „ætti skv. lögum að vera 1556 krónur eða 625 krónum hærra á mánuði.“

Sjá einnig: Framlög til þjóðkirkjunnar aukast

„Nú er svo komið, að ákveðnir söfnuðir virðast endanlega vera að komast í þrot fjárhagslega. Sumir söfnuðir hafa ekki getað sinnt brýnasta viðhaldi eigna og eru nú, nærri tíu árum eftir hrunið, að segja upp starfsfólki, lækka starfshlutfall og draga úr starfi,“ segir í tilkynningu enda hafi sóknargjaldið aðeins hækkað um 59 kr. á mánuði frá árinu 2008 eða um 6,8%. Vísitala neysluverðs hafi hins vegar hækkað um u.þ.b. 60,2% á sama tíma.

Því sé ákaflega brýnt að viðræður ríkisvaldsins við kirkjuna um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju verði til lykta leiddar sem allra fyrst.

Þjóðkirkjumeðlimir í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra eru um 63 þúsund talsins og er það því fjölmennasta prófastsdæmi landsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×