Héraðsfundur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, sem haldinn var í Guðríðarkirkju þann 30. maí síðastliðinn, skorar á ríkisstjórnina að leiðrétta sóknargjöld í þá upphæð sem þau eiga að vera samkvæmt lögum og „gera upp skuld sína við Þjóðkirkjuna vegna skerðingar sóknargjalda undanfarin tíu ár.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá héraðsfundinum, sem jafnframt er aðalfundur prófastsdæmisins.
Í tilkynningu segir að ekki sé von á leiðréttingu á „þeirri gríðarlegu skerðingu sóknargjaldsins sem viðgengist hefur frá árinu 2009.“ Þá hafi skerðingin leitt til þess að sóknargjaldið sé nú 931 króna á mánuði fyrir hvern meðlim en „ætti skv. lögum að vera 1556 krónur eða 625 krónum hærra á mánuði.“
Sjá einnig: Framlög til þjóðkirkjunnar aukast
„Nú er svo komið, að ákveðnir söfnuðir virðast endanlega vera að komast í þrot fjárhagslega. Sumir söfnuðir hafa ekki getað sinnt brýnasta viðhaldi eigna og eru nú, nærri tíu árum eftir hrunið, að segja upp starfsfólki, lækka starfshlutfall og draga úr starfi,“ segir í tilkynningu enda hafi sóknargjaldið aðeins hækkað um 59 kr. á mánuði frá árinu 2008 eða um 6,8%. Vísitala neysluverðs hafi hins vegar hækkað um u.þ.b. 60,2% á sama tíma.
Því sé ákaflega brýnt að viðræður ríkisvaldsins við kirkjuna um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju verði til lykta leiddar sem allra fyrst.
Þjóðkirkjumeðlimir í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra eru um 63 þúsund talsins og er það því fjölmennasta prófastsdæmi landsins.
