Erlent

Lögreglumenn lúskruðu á óvopnuðum manni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Manninum var gert að færa sig upp að vegg. Skömmu síðar hófust barsmíðarnar.
Manninum var gert að færa sig upp að vegg. Skömmu síðar hófust barsmíðarnar. Skjáskot
Lögreglan í Mesa-borg í Arizona birti í gær myndband úr öryggismyndavél þar sem sjá má lögreglumenn ganga í skrokk á óvopnuðum manni.

Barsmíðarnar áttu sér stað þann 23. maí síðastliðinn. Í myndbandinu, sem sjá má hér að neðan, sést hvernig fjórir lögreglumenn veitast að manninum. Einn þeirra rekur hné í maga hans, skellir höfði mannsins í lyftuhurð á meðan annar slær hann þéttingsfast í höfuðið.

Lögreglan hafði verið send að íbúðarblokk þar sem þau rákust á manninn, sem nafngreindur hefur verið sem Robert Johnson. Lögreglumenninir skipuðu honum að setjast niður á meðan þeir ræddu við hann. Johnson byrjar þá að tala í farsíma og skömmu síðar hefjast barsmíðarnar.

Lögreglumennirnir segja að Johnson hafi ekki hlýtt fyrirmælum þeirra og verið ógnandi í samskiptum. Hann hefur nú verið kærður fyrir að brjóta gegn valdstjórninni og hindra framgang réttvísinnar. Í frétt VOX um málið segir hins vegar að ekki liggi fyrir hvað Johnson á að hafa hindrað.

Lögreglustjórinn í Mesa sagði í samtali við fjölmiðla að embættið hafi viljað gera myndbandið opinbert til að varpa ljósi á málið. Hann segist telja að lögreglumenn sínir hafi ekki verið upp á sitt besta og að honum þyki miður að málið hafi þróast með þessum hætti.

Fjórir lögreglumenn sem sjást í myndbandinu hafa verið sendir í leyfi frá störfum meðan atvikið er til rannsóknar. Lögreglan gerir ráð fyrir því að opinbera fleiri myndbönd af handtökunni á næstu dögum.

Barsmíðarnar hefjast þegar þrjár mínútur eru liðnar af myndbandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×