Innlent

Í annarlegu ástandi með sprautunál

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Maðurinn var handtekinn í Garðabæ.
Maðurinn var handtekinn í Garðabæ. Steinn Vignir
Maður var handtekinn við verslun Olís í Garðabæ um klukkan 4 í nótt. Í skeyti lögreglunnar er maðurinn sagður hafa verið í annarlegu ástandi og var lögreglumönnum tjáð að hann væri með sprautunál í fórum sínum. Tilkynningin á að hafa verið á rökum reist því maðurinn er sagður hafa haldið á sprautunálinni þegar lögreglumenn bar að garði.

Ekki fylgir sögunni hvort hann hafi ógnað fólki með nálinni eða reynt að ræna verslunina. Engu að síður var maðurinn handtekinn og fluttur í fangageymslu þar sem hann var vistaður vegna ástands.

Þá voru hið minnsta fjórir ökumenn stöðvaðir í gærkvöld vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna. Lögreglan hélt jafnframt úti umferðarpósti á Breiðholtsbraut upp úr miðnætti, þar sem 103 bifreiðar voru stöðvaðar og athugað var með réttindi og ástand ökumanna. Einn ökumaður reyndist vera sviptur ökuréttindum og annar hafði aldrei öðlast ökuréttindi, að sögn lögreglunnar.

Öðrum umferðarpósti var komið fyrir á Kópavogshálsi skömmu síðar þar sem 32 bifreiðar voru stöðvaðar. Þar voru þó engin brot skráð í dagbók lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×