Skoðun

Óendurgoldin ást

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Þegar sólin loksins skín lifnar allt við. Líka mannsandinn. Sólin á stóran stað í hjartanu enda gætum við ekki án hennar verið. Og við á norðurhveli jarðar höfum upplifað ýmsa kvilla í sólarleysinu.

Sólarleysi var t.d. algeng ástæða beinkramar áður en við fórum að gefa börnunum okkar D-vítamín, eða sólskins-vítamín eins og Theobald Palm kallaði það þegar hann uppgötvaði þessi tengsl.

Fólk forðaðist sólina hér áður fyrr því það var talið fínt að vera sem hvítastur. Sagt er að Coco Chanel hafi fundið upp sólböðin þegar hún mætti sólbrún til Cannes eftir siglingu á Miðjarðarhafinu árið 1923.

Sólböðin slógu rækilega í gegn og náðu svo mikilli útbreiðslu að um síðustu aldamót sagði helmingur Breta að megintilgangur sólarlandaferða væri að koma heim sólbrúnn.

En eins mikið og hægt er að elska sólina þá er ástarsambandið ekki gagnkvæmt. Á meðan húðin baðar sig í heitum sólargeislum eru þeir í fullri vinnu við að láta húðina eldast hraðar. Húðin verður slöpp, fær línur, æðaslit, bletti (m.a. krabbamein) og ójafna áferð. Það sem við teljum stundum eðlilega öldrun er oft á tíðum einfaldlega afrakstur sólbaða. Prófaðu að bera saman húðina sem sól skín sjaldan á (t.d. handarkrika) og oft (t.d. handarbak). Þá sérðu hversu mikið sólin hefur látið húðina eldast.

En ekki viljum við kúldrast í skugganum þegar sólin lætur loksins sjá sig. Ef við berum á okkur sólarvörn í styrkleika 30 SPF þá minnka líkurnar á húðkrabbameini og húðin eldist ekki eins hratt. Sólgleraugu eru einnig góð fjárfesting því sólin getur m.a. valdið skýi á auga. Með slíkum vörnum getum við haldið áfram þessu einhliða ástarsambandi og notið sólarinnar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×