Erlent

Assad verður fyrsti leiðtoginn sem hittir Kim í Norður-Kóreu

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Samstarf ríkjanna hefur verið sérstaklega gott síðan Norður-Kórea sendi Sýrlendingum öflugan liðsstyrk í Yom Kippur stríðinu við Ísrael árið 1973
Samstarf ríkjanna hefur verið sérstaklega gott síðan Norður-Kórea sendi Sýrlendingum öflugan liðsstyrk í Yom Kippur stríðinu við Ísrael árið 1973 Vísir/Getty
Bashar al Assad, forseti Sýrlands, verður fyrsti þjóðarleiðtoginn til að fara í opinbera heimsókn til Norður-Kóreu síðan Kim Jong-un kom til valda fyrir sjö árum. Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu segja að Assad sé væntanlegur til landsins þann þrítugasta maí næstkomandi.

Haft er eftir Assad að hann sé sannfærður um að Kim muni sigra að lokum og endursameina Kóreuskagann. Sýrland er eitt af fáum ríkjum sem heldur sterkum tengslum við stjórnvöld í Norður-Kóreu og á síðustu árum hefur bandamönnum Sýrlendinga í heiminum fækkað. Bæði ríki hafa sætt efnahagsþvingunum og einangrun í alþjóðasamfélaginu.

Samstarfið hófst árið 1973 þegar Norður-Kórea sendi óvænt meira en 500 vel þjálfaða hermenn til að aðstoða Sýrlendinga gegn Ísrael í Yom Kippur stríðinu. Hermennirnir reyndust afar verðmætir þar sem þeir höfðu hlotið þjálfun í að fljúga orrustuþotum, keyra skriðdreka og manna loftvarnarstöðvar.

Á seinni árum hafa vestrænar vopnaeftirlitsmenn sakað stjórnvöld í Norður-Kóreu um að aðstoða Sýrlendinga við þróun og framleiðslu efnavopna en bæði ríki neita því að eiga í slíku samstarfi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×