Fótbolti

Kári: „Einhver álög á okkur í æfingaleikjum“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kári Árnason bar fyrirliðabandið í fjarveru Arons Einars Gunnarssonar í vináttulandsleik Íslands og Noregs á Laugardalsvelli í kvöld. Lærisveinar Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfara Noregs, fóru með sigur af hólmi. Kári var svekktur með tapið en ekkert of stressaður varðandi framhaldið.

„Það er náttúrulega bara ömurlegt, sérstaklega þegar það er íslenska landsliðið. Það eru einhver álög á okkur í þessum æfingaleikjum, það bara gengur ekkert. Það voru alveg jákvæðir punktar í þessu en við megum ekki sofa svona á verðinum og glutra þessu niður á lokamínútunum,“ sagði Kári í samtali við Arnar Björnsson eftir leik spurður um hvort ekki væri leiðinlegt að horfa á liðið sitt tapa sem fyrirliði.

Að mati Kára var sóknarleikur liðsins það jákvæðasta en klaufaskapur í vörninni kostaði liðið sigurinn á lokasprettinum.

„Við skorum tvö mörk og mér fannst við hafa stjórn á þeim. Svo setja þeir tvo spræka menn inn á og við kannski glímum ekki nógu vel við það. Samt, það er algjör óþarfi að fá svona mörk á sig og svo úr löngu innkasti,“ sagði Kári.

Hann hefur þó ekki miklar áhyggjur af framhaldinu en leikurinn gegn Noregi var liður í lokaundirbúning fyrir Heimsmeistaramótið í Rússlandi sem hefst innan skamms.

„Það er svolítið langt síðan við höfum spilað saman og við erum bara að stilla saman strengi. Þetta er partur af undirbúningnum. Við fengum líka skell á móti þeim út í Noregi síðast þannig að vonandi er þetta góðs viti,“ segir Kári.

Framundan er leikur á fimmtudaginn gegn Gana sem menn binda vonir við að verði góður undirbúningur fyrir leikinn gegn Nígeríu í D-riðli HM. En við hverju býst Kári í þeim leik?

„Ég býst við allt öðruvísi liði,“ sagði Kári. „Það verður allt annar leikur og við leggjum hann öðruvísi upp. “


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×