Erlent

Fjölskylda manns sem var skotinn til bana af lögreglu fær fjóra dollara í skaðabætur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Maðurinn skildi eftir sig eiginkonu og tvær dætur.
Maðurinn skildi eftir sig eiginkonu og tvær dætur.
Fjölskylda manns sem skotinn var til bana af lögreglumanni í Bandaríkjunum fær samtals fjóra dollara, um 400 krónur, í skaðabætur. Kviðdómur komst að þessari niðurstöðu í dómsmáli sem fjölskyldan höfðaði. BBC greinir frá.



Gregory Vaughn Hill jr. var skotinn til bana árið 2014 í St. Lucie sýslu í Flórída, eftir að lögregla kom að heimili hans vegna kvartana yfir hávaða.

Hill var skotinn í gegnum hurð en óhlaðin byssa fannst í grennd við lík hans. Deild var um hvort hann hafði haldið á henni eða ekki.

Eiginkona hans höfðaði mál gegn lögreglunni í eigin nafni og fyrir tvær dætur hennar og Hill. Kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að lögreglumaðurinn hefði ekki beitt óhóflegu valdi er hann skaut Hill til bana.

Var það niðurstaða kviðdómsins að Hill bæri 99 prósent ábyrgð á eigin dauða, lögreglumaðurinn bæri hins vegar eitt prósent ábyrgð. Kviðdómur var einnig beðinn um að meta hvort að fjölskylda Hill ætti rétt á skaðabótum.

Að mati kviðdóms var það svo og ákvað hann að saman ættu þau rétt á fjórum dollurum, einn fyrir eiginkonuna og einn fyrir hvora dóttur.

Lögmaður fjölskyldunnar hefur gagnrýnt niðurstöðu kviðdóms harkalega og segir hann augljóst að málinu verði áfrýjað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×