Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum er vakin athygli á því að jafnvel smæstu hlutir geti truflað einbeitingu ökumanna svo að þeir lendi í óhöppum.
„Slíkt atvik átti sér stað í vikunni þegar ökumaður var að reyna að fæla flugu út úr bifreið sinni í vikunni með þeim afleiðingum að bifreiðin hafnaði á ljósastaur á Vatnsleysustrandarvegi,“ segir í tilkynningunni.
Fór ökumaðurinn í skoðun á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en bíll hans var fluttur af vettvangi með dráttarbíl auk þess sem að fjarlægja þurfti staurinn.
„Þetta sýnir glögglega að það borgar sig alltaf að hafa athyglina við aksturinn,“ segir í tilkynningunni.