Samanlagður kostnaður við hlutafjárútboð og skráningu Arion banka, sem leggst á annars vegar bankann og hins vegar Kaupþing og vogunarsjóðinn Attestor Capital, mun nema á þriðja milljarð króna. Hlutafjárútboðið hófst í gær en gert er ráð fyrir að fyrsti viðskiptadagur með bréf í bankanum í Nasdaq-kauphöllinni hér á landi og í Stokkhólmi verði 15. júní.
Gengi bréfanna, sem Kaupþing og Attestor bjóða til sölu í útboðinu, er á bilinu 0,6 til 0,7 miðað við eigið fé bankans. Að lágmarki verður 22,63 prósenta hlutur seldur en heimilt er að stækka grunnstærð útboðsins í 36,2 prósenta hlut. Kaupþing, sem fer með 55,6 prósent í Arion, hyggst losa um stóran eignarhlut en Attestor, sem á 12,4 prósent, mun selja allt að tveggja prósenta hlut.
Kostnaður Arion banka vegna útboðsins og skráningarinnar er áætlaður um einn milljarður króna, að því er fram kemur í skráningarlýsingunni sem birt var í gær.
Þá er gert ráð fyrir því að samanlögð sölutryggingarþóknun, önnur gjöld og kostnaður, þar á meðal við lögbundna skýrslugerð og skráningu, og upphæðir sem seljendurnir, Kaupþing og Attestor, greiða vegna útboðsins verði á annan milljarð króna. Endanlegur kostnaður mun ráðast af ýmsum þáttum.
Að því gefnu að útboðsgengið verði á miðju verðbilinu, það er á genginu 0,65 miðað við eigið fé, hluturinn sem verður seldi verði mitt á milli 22,63 og 36,2 prósent og að umframsöluréttur verði ekki nýttur, þá er áætlaður kostnaður um það bil 1.474 milljónir króna.
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2023-04-17T130952.218Z-everton.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/gracenote/4075.png)