Skoðun

Kattarþvottur

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Kettir eru merkilegar skepnur. Fara sínar eigin leiðir og ekki er á þá að treysta. Síst af öllu í stjórnmálum. Jóhanna Sigurðardóttir veit allt um það eftir að hafa staðið sveitt í því vonlausa puði að smala villiköttum.

Hugarfar hundsins er miklu heppilegra þegar stjórnmál eru annars vegar. Flokkarnir og kerfið sem þeir hönnuðu og þrífast á byggir á leiðitömum, slefandi, húsbóndahollum rökkum sem gelta þegar eigandinn sigar þeim á óvininn en þegja þess á milli þegar góðri dúsu er kastað í skoltinn á þeim.

Þótt kötturinn nenni ekki að hugsa um neitt nema sjálfan sig þá getur samt verið ómetanlegt að hafa svona eins og einn ómótstæðilegan tækifærissinna í liðinu.

Þannig var blaðamannafundur nýs meirihluta í borgarstjórn í Breiðholtinu í vikunni veiðihársbreidd frá því að verða óbærilega klisjukenndur og hallærislegur ef hin fræga Breiðholtslæða Perla hefði ekki stolið senunni.

Hún færði fókusinn, með ómótstæðilegum sjarma, af innantómum belgingi tapara í kosningum sem voru mættir til þess að berja sér á brjóst með sorglega lítið atkvæðamagn að baki sér. Og það eina sem Perla tók fyrir greiðann og þessa almannatengslabrellu sem er milljóna virði var knús frá lúserunum.

Eitthvað sem þetta fólk mætti hafa í huga og læra af. Kannski væri ráð að knúsa kjósendur af og til og standa við að minnsta kosti eitt loforð um að opna túnfisksdós með 3.000 íbúðum fyrir fólk sem hefur ekki efni á því að borga 250.000 fyrir að leigja kjallaraholu?

Breiðholtslæðan Perla og aðrir kettir eiga níu líf en sumir sem tóku hana í fang sér fyrir framan myndavélarnar eru búnir með öll sín pólitísku líf og geta tæpast stólað á svona kattarþvott.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×