Innlent

Dragdrottningin Gógó Starr mun leiða skrúðgönguna á 17. júní í hlutverki fjallkonunnar

Birgir Olgeirsson skrifar
Gógó Starr er hliðarsjálf Sigurðar Heimis Guðjónsson
Gógó Starr er hliðarsjálf Sigurðar Heimis Guðjónsson Vísir/Laufey Elíasdóttir
Dragdrottningin Gógó Starr mun bregða sér í hlutverk fjallkonunnar í skrúðgöngunni í Reykjavík í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslendinga á sunnudag, 17. Júní.

Greint er frá þessu á vef GayIceland  en þar ræðir blaðamaðurinn við Gógó Starr sem er hliðarsjálf Sigurðar Heimis Guðjónssonar.

Hann segir að hann muni ekki taka að sér að lesa upp ljóð í tengslum við hátíðarhöldin heldur verður leikkona í því hlutverki.

Sigurður segir að þetta verði í fyrsta skipti sem tveir einstaklingar verði í hlutverki fjallkonunnar á þjóðhátíðardeginum í Reykjavík og annar þeirra í dragi.

Hann segist ætla að klæða sig í þjóðbúning kvenna, skautbúninginn svokallaða, en segist vera í leit að slíkum klæðnaði þar sem hann eigi hann ekki sjálfur.

Gógó Starr var valin dragdrottning ársins árið 2015.Vísir/Andri Marínó
Sigurður segir það hafa verið langþráðan draum sinn að leika fjallkonuna.

Hann segist hafa sett sig í samband við rétt fólk hjá borginni og einfaldlega spurt hvort hann mætti gera þetta. „Þau sögðu: „Já, af hverju ekki?“

Sigurður segir að í fyrstu hafi hugmyndin verið að hann tæki að sér hefðbundið hlutverk fjallkonunnar, það er að lesa upp ljóð, en síðar hafi borgin stungið upp á því hvort hann vildi ekki leiða skrúðgönguna í stað þess að standa stífur upp á sviði.

„Það hljómaði vel og þess vegna erum við hér,“ er haft eftir Sigurði.

Hann segir þetta var straumhvörf í dragsamfélagi Íslands. „Þetta er merki um hvernig samfélagið er að meðtaka dragsenuna og hinsegin kúltúrinn í auknu mæli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×