Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segist ætla að vekja máls á því að refsiaðgerðir gegn Rússum verði hertar á leiðtogafundi Evrópusambandsins síðar í þessum mánuði. Andað hefur köldu á milli breskra og rússneskra stjórnvalda eftir taugaeitursárás í enskum bæ í mars.
„Ég mun halda uppi þrýstingi til að tryggja að við höldum í refsiaðgerðir gegn Rússlandi. Ég held raunar að það séu nokkur svið þar sem við ættum að efla refsiaðgerðirnar,“ sagði May í breska þinginu í dag, að því er kemur fram í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Breska ríkisstjórnin sakar stjórn Vladímírs Pútín Rússlandsforseta um að hafa staðið að taugaeitursárás á Sergei Skrípal, rússneskan fyrrverandi njósnara, og dóttur hans í bænum Salisbury fyrr á þessu ári.
Rússar hafa þvertekið fyrir að hafa komið nálægt tilræðinu þrátt fyrir að sovéska taugaeitrið novichok hafi verið notað við það.
May vill herða aðgerðirnar gegn Rússum

Tengdar fréttir

Rússar njósnuðu um Skrípal og prófuðu eitrið á hurðarhúnum
Breska leyniþjónustan afléttir leynd af gögnum til að svara mótbárum rússneskra stjórnvalda um taugaeitursárásina í Salisbury.

Gaf upplýsingar um rússnesku leyniþjónustuna áður en eitrað var fyrir honum
Síðustu árin hafði Sergei Skrípal gefið evrópskum leyniþjónustum upplýsingar um störf þeirrar rússnesku. Eitrað var fyrir honum í mars.

Rússar hafna niðurstöðunum alfarið
Stofnunin um bann við efnavopnum staðfesti að Novichok-taugaeitri hefði verið beitt gegn Sergei og Júlíu Skrípal. Bretar segja nú deginum ljósara að rússnesk yfirvöld hafi beitt efnavopni í Salisbury. Rússar hafna niðurstöðum rannsóknar alfarið.