Innlent

Þekktu rauðu ljósin: „Í upphafi okkar sambands þá var hann ofboðslega yndislegur“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Helga Arnardóttir og Bragi Þór Hinriksson tóku að sér umsjón og gerð myndbandanna fyrir herferðina.
Helga Arnardóttir og Bragi Þór Hinriksson tóku að sér umsjón og gerð myndbandanna fyrir herferðina. Skjáskot/Youtube
„Ég var hætt að þora að sofna og ég var hætt að þora að snúa baki í hann,“ segir Jenný Kristín Valberg en hún var í ofbeldissambandi í 13 ár. Jenný Kristín segir sína sögu í myndbandi fyrir herferðina Þekktu rauðu ljósin. Þar lýsir hún ofbeldinu, hættumerkjunum í sambandinu og því augnabliki þegar hún flúði af heimilinu.

„Í upphafi okkar sambands þá var hann ofboðslega yndislegur. Mér fannst ég bara ótrúlega heppin að hafa kynnst þessum manni. En það fór mjög fljótlega að bera á svona atvikum sem að ég kannski hefði átt að stoppa við.“

Stjórnunin var hundrað prósent

Ástandið var svo slæmt að Jenný Kristín fór aldrei að heiman án þess að vera með börnin sín því hún þorði ekki að skilja þau eftir. Jenný Kristín lýsir því hvernig ofbeldismaðurinn sturlaðist stundum ef börnin gerðu ekki eins og þeim var sagt.

„Það var skellt hurðum, barið í veggi og hann hellti sér yfir þau.“

Börnin áttu helst að vera inni í herbergi. Jenný Kristín bendir á að maður þurfi ekki að lemja þig til þess að hafa stjórnina.

„Stjórnunin var hundrað prósent. Þegar maður er einu sinni búinn að sýna hversu megnugur hann er, þótt að hann berji þig ekki eða börnin en hann kannski lemur í veggi, lemur í húsgögn og brýtur skrifborðsstólinn sem barnið þitt situr í.“

Jenný Kristín segir að hún hafi verið í sambandinu í öll þessi ár því hún hafi ekki hlustað á aðvörunarljósin.

„Það voru rauð ljós sem kviknuðu þarna alveg í byrjun.“

Herferðin Þekktu rauðu ljósin er svar Kvennaathvarfsins og Bjarkarhlíðar við síaukinni eftirspurn ungs fólk eftir aðstoð vegna ofbeldis í nánum samböndum. Umræðan um ofbeldi í nánum samböndum beinist oft að fólki sem hefur búið saman og ofbeldið átt sér stað innan veggja heimilisins en skortur er á efni sem beint er til fólks sem er að hefur nýhafið samband.

Herferðin miðar að því að minna á að ofbeldi birtist smátt og smátt í samböndum, að ýmis viðvörunarmerki eru oft undanfari ofbeldisins.  Vitundarvakningin felst í stuttum myndböndum þar sem nokkrar hugrakkar konur sem stigið hafa út úr ofbeldissamböndum líta til baka og ræða viðvörunarljósin sem birtust í sambandinu þó þær hafi ekki séð þau fyrr en of seint.

„Það er von okkar að þessi vitundarvakning auki skilning fólks á ofbeldi í nánum samböndum og hjálpi fólki að sjá rauðu ljósin áður en til ofbeldis kemur.“

Kynntu þér úrlausnir hjá Bjarkarhlíð og Kvennaathvarfinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×