Erlent

Morðhrina vegna orðróms á samfélagsmiðlum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Múgur myrti þá Abijeet Nath og Nilotpal Das á dögunum.
Múgur myrti þá Abijeet Nath og Nilotpal Das á dögunum. Facebook
Indverska lögreglan hefur handtekið 16 einstaklinga í tengslum við morð á tveimur mönnum í norðausturhluta landsins. Talið er að mennirnir tveir séu í hópi fólks sem drepið hefur verið á Indlandi á síðustu vikum eftir að skæður orðrómur fór á flug um tengsl fólksins við meintan barnaránshring.

Mennirnir tveir, þeir Abijeet Nath og Nilotpal Das, voru myrtir eftir að hafa stöðvað bifreið sína og spurt um leiðsögn í héraðinu Assam. Stór hópur heimamanna veittist þá að þeim og endaði það með andláti þeirra beggja.

Orðrómar um barnarán hafa farið á flug meðal Indverja á samfélagsmiðlunum WhatsApp. Talið er að um 6 einstaklingar hafi verið myrtir vegna meintra tengsla þeirra við barnarán síðastliðinn mánuð.

Haft er eftir talsmanni indversku lögreglunnar að erfitt geti reynst að stöðva slíkan orðróm þegar hann er kominn á flug á samfélagsmiðlum. Engu að síður fylgist lögreglumenn með umræðunni og reyni að grípa inn í þegar þeir geta.

Ekki er vitað hvernig orðrómurinn kviknaði en á vef breska ríkisútvarpsins segir að árásir, eins og þær sem dregið hafa einstaklingana 6 til dauða, séu algengar á Indlandi.

Myndbönd, sem eiga að sýna barnarán á götum úti, hafi að sama skapi fengið mikla athygli á indverskum samfélagsmiðlum. Það hafi blásið upp andúð á ókunnugum og þeim sem tala ekki mállýskur heimamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×