Fótbolti

Bandarískur fótboltamaður opnaði sig um kynhneigð sína

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Martin, til hægri, í leik með Minnesota
Martin, til hægri, í leik með Minnesota víris/getty
Bandaríski fótboltamaðurinn Collin Martin opinberaði í dag að hann sé samkynhneigður. Martin er eini samkynhneigði íþróttamaðurinn í stærstu deildum Bandaríkjanna, í það minnsta sá eini sem hefur opinberað kynhneigð sína.

Martin spilar fyrir Minnesota United í MLS deildinni. Hann hefur spilað í MLS deildinni í sex ár og var í yngri landsliðum Bandaríkjanna.

„Það eru mörg ár síðan ég kom út úr skápnum og fjölskylda mín og vinir hafa lengi vitað af þessu, liðsfélagar mínir þar með taldir. Ég er stoltur af því að í dag fær allt starfslið Minnesota United að vita að ég er samkynhneigður. Ég hef fengið ekkert nema góð viðbrögð frá öllum í MLS og það gerði ákvörðunina um að opinbera þetta auðveldari,“ skrifaði Martin á Twitter í dag.

„Ég vil þakka liðsfélögunum fyrir óendanlegan stuðning í minn garð. Sem atvinnumaður í íþróttum vil ég nota þetta tækifæri og hvetja alla íþróttamenn til þess að trúa því að íþróttirnar taki á móti þeim af öllu hjarta.“



 

Forráðamaur MLS deildarinnar Don Garber gaf frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði alla „dást að hugrekki Collin og vera stolt af honum og stuðningnum sem fótboltasamfélagið veiti honum.“

Martin er ekki fyrsti fótboltamaðurinn í MLS deildinni sem opnar sig um kynhneigð sína en fyrrum LA Galaxy kantmaðurinn Robbie Rogers opinberaði að hann væri samkynhneigður árið 2013. Hann hætti í fótbolta á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×