Erlent

Rannsaka 21 dauðsfall eftir að maður reyndi að eitra fyrir samstarfsmanni

Atli Ísleifsson skrifar
Vísir/Getty
Lögregla í Þýskalandi rannsakar nú 21 dauðsfall starfsmanna fyrirtækis í vesturhluta landsins eftir að starfsmaður náðist á myndavél við að eitra hádegisverð samstarfsfélaga síns.

Lögregla hefur handtekið 56 ára karlmann vegna gruns um að hafa reynt að drepa samstarfsfélaga sinn í bænum Schloss Holte-Stukenbrock í Norðurrín-Vestfalíu. Í frétt Reuters kemur fram að lögregla hafi ekki nafngreint hinn grunaða, samstarfsmann hans eða fyrirtækið sem um ræðir.

Samstarfsmaður hins grunaða hafði tekið eftir einhverju grunsamlegu í hádegisverði sínum og þá gert yfirmönnum og lögreglu viðvart. Á myndbandsupptökum sást svo hinn grunaði vera að dreifa dufti yfir mat samstarfsfélagans. Leiddu rannsóknir í ljós að duftið hefði getað valdið alvarlegum líffæraskaða.

Við húsleit á heimili mannsins fann lögregla svo ýmis efni, meðal annars nokkurt magn kvikasilfurs, blýs og kadmíums.

Frekari rannsóknir leiddu svo í ljós 21 tilfelli aftur til ársins 2000 þar sem starfsmenn umrædds fyrirtækis sem nálguðust eftirlaunaaldur höfðu látið lífið af völdum krabbameins eða hjartaáfalls. Segja sérfræðingar að eitrun af völdum þungamálma hefði geta leitt til dauða fólksins.

Lögregla segir ekkert liggja fyrir um ástæður hins grunaða fyrir að hafa eitrað fyrir samstarfsmanni sínum. Hinn grunaði hafi ekkert viljað tjá sig um þær ásakanir sem á hann eru bornar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×