Erlent

Tilkynna á morgun hvar og hvenær Trump og Pútín munu funda

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Pútín og Bolton funduðu í dag.
Pútín og Bolton funduðu í dag. Vísir/EPA
Leiðtogafundur Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Vladimírs Pútín Rússlandsforseta verður hvorki í Bandaríkjunum né í Rússlandi en á morgun verður tilkynnt hvar og hvenær fundurinn verður. Þetta tilkynnti aðstoðarmaður Pútín í dag en Vínarborg og Helsinki hafa verið nefndar sem hugsanleg staðsetning fyrir leiðtogafund.

John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Trump, fundaði með Rússlandsforseta í dag til að skipuleggja fundinn. Einnig ræddu þeir kjarnorkumál og önnur mál er varða tvíhliða samskipti Bandaríkjanna og Rússlands. 

Í upphafi fundarins sagði Pútín að samskipti ríkjanna tveggja væru því miður ekki góð og kenndi hann átökum í Bandarískum stjórnmálum um. Þá vonaðist hann til að fundurinn með Bolton væri fyrsta skrefið í bæta samskipti Rússlands og Bandaríkjanna.

Bolton hefur sjálfur lagt til harðlínustefnu gagnvart ríkjum líkt og Rússlandi, Norður Kóreu og Íran en Trump Bandaríkjaforseti hefur þótt heldur mildur í garð Rússlands. Trump hefur meðal annars lagt til að Rússar fái aftur aðgang að fundum G7 ríkjanna. Þá gæti Pútín vonast til að Trump samþykki að slaka á vestrænum þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi. Það þykir þó ólíklegt þar sem þvingunaraðgerðirnar eru háðar samþykki Bandaríkjaþings.

Trump og Pútín hafa einungis hist lítillega en þeir hittust fyrst á G20 leiðtogafundinum síðasta sumar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×