Enski boltinn

Danny Ings á förum frá Liverpool

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Danny Ings.
Danny Ings. Vísir/Getty
Enski sóknarmaðurinn Danny Ings er byrjaður að leita sér að nýjum vinnuveitanda eftir að hafa hafnað samningstilboði frá Liverpool. Hann vill finna lið þar sem hann fær meiri spilatíma.

Sky greinir frá þessu í dag.

Ings hefur aðeins byrjað sex leiki í ensku úrvalsdeildinni á síðustu þremur árum en erfið meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá þessum 25 ára gamla framherja sem kom til Liverpool frá Burnley árið 2015.

Samkvæmt heimildum Sky vildi Liverpool halda kappanum og var honum boðinn framlenging á samningi sínum, sem er þó í gildi til næstu tveggja ára. Ings hafnaði hins vegar tilboðinu og hefur óskað eftir því að fá að ræða við önnur félög.

Liverpool ætlar ekki að standa í vegi fyrir kappanum og er talið að þeir muni ekki fara fram á háa fjárhæð en Ings hefur verið orðaður við Burnley, Tottenham, Red Bull Leipzig, Bayer Leverkusen og Inter Milan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×