Viðskipti innlent

Íslensk Ameríska tapaði 301 milljón

Guðbjörg Matthíasdóttir, aðaleigandi ÍSAM.
Guðbjörg Matthíasdóttir, aðaleigandi ÍSAM.
Heildsölurisinn Íslensk Ameríska (ÍSAM) tapaði 301 milljón króna á síðasta ári samanborið við 262 milljóna króna hagnað árið 2016. Rekstrartekjur félagsins námu 12.014 milljónum króna í fyrra og drógust saman um 400 milljónir frá fyrra ári og þá voru rekstrargjöldin 11.990 milljónir árið 2017 og jukust um 290 milljónir á milli ára, að því er fram kemur í samstæðureikningi ÍSAM fyrir síðasta ár.

Íslensk Ameríska, sem flytur meðal annars inn vörur frá Procter & Gamble, er ein veltumesta heildverslun landsins en innan samstæðunnar eru jafnframt framleiðslufyrirtækin Myllan, ORA, Frón og Kexsmiðjan. Fjárfestingarfélagið Kristinn, sem er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, er eini eigandi heildsölunnar.

Sjá einnig: Guðbjörg Matthíasdóttir kaupir Íslensk Ameríska

Samkvæmt efnahagsreikningi ÍSAM voru eignir samstæðunnar 8,3 milljarðar króna í lok síðasta árs borið saman við 7,4 milljarða í lok árs 2016. Eigið fé var jákvætt um 1,9 milljarða í lok árs 2017 en var jákvætt um 2,2 milljarða í árslok 2016. Eiginfjárhlutfallið er því 22,3 prósent.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að ÍSAM hafi í maí á þessu ári endurfjármagnað allar vaxtaberandi skuldir sínar. Samhliða hafi hlutafé félagsins verið aukið um 500 milljónir króna og víkjandi lán upp á 300 milljónir tekið.

Bergþóra Þorkelsdóttir lét af störfum sem forstjóri ÍSAM í lok marsmánaðar en hún tók við starfinu í lok árs 2015. Eftirmaður hennar hefur ekki verið ráðinn. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×