Innlent

Eiga von á 10.000 gestum á Landsmót

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Alls eiga 132 hross rétt til þátttöku í fullorðinsflokkum í gæðingakeppninni í ár.
Alls eiga 132 hross rétt til þátttöku í fullorðinsflokkum í gæðingakeppninni í ár. Aðsent
Landsmót hestamanna hefst á morgun, sunnudaginn 1.júlí, á keppnissvæði Fáks í Víðidal. Mikil eftirvænting er á meðal hestamanna og áhugafólks um íslenska hestinn. Búist er við um 10.000 gestum á mótið í á og er talið að um fjórðungur komi erlendis frá. Fjöldi erlendra gesta sækir landið sérstaklega heim til að mæta á Landsmót.

Á mótinu verður gæðingakeppni þar sem bestu knapar og hestar landsins etja kappi og sýnd fremstu kynbótahross landsins. Jafnframt verður boðið upp á fjölbreytta fræðslu- og skemmtidagskrá fyrir börn og fullorðna alla daga fram að mótslokum, sunnudaginn 8. júlí.

„Á Landsmóti koma saman bestu hestar landsins til keppni og sýninga, auk þess sem þar fara fram kappreiðar, töltkeppni, heiðursverðlaunasýningar kynbótahrossa og sýningar ræktunarbúa. Margir bíða eftirvæntingarfullir eftir sýningu kynbótahrossa, enda hafa þegar verið slegin tvö heimsmet á kynbótasýningum í aðdraganda mótsins,“ segir í tilkynningu um mótið.

Alls eiga 132 hross rétt til þátttöku í fullorðinsflokkum í gæðingakeppninni og er það um 15 prósent aukning frá síðasta Landsmóti á Hólum sem fór fram árið 2016.

Á Landsmóti verður veitingatjald og verður sýnt frá leikjum HM á risaskjá.Aösent

Fjölskyldudagur og sveitaböll

Fyrsti mótsdagurinn er sérstakur fjölskyldudagur og er frítt inn á mótið þann dag fyrir alla. Leikhópurinn Lotta lítur í heimsókn í Mathöllina í Reiðhöllinni klukkan 14. Jói Pé og Króli verða einnig á svæðinu og koma fram á balli fyrir börnin í Reiðhöllinni/Mathöll sem hefst klukkan 19. Sérstök leiksvæði með hoppuköstulum og fleiru skemmtilegu fyrir börnin eru opin alla mótsdagana.

Á Landsmóti verða sveitaböll bæði föstudags- og laugardagskvöld og gítarpartý á hverju kvöldi frá þriðjudegi til laugardags. Þar troða upp Grétar og Hebbi, Stebbi Jak, Sigvaldi Helgi, Salka Sól og Magni Ásgeirsson, sem jafnframt er tónlistarstjóri mótsins. Á kántrítónleikum og dansleik í Reiðhöllinni á föstudagskvöldinu halda uppi fjörinu Axel Ó & Co, ásamt Rúnari F, Helga Björns og Reiðmönnum vindanna. Hljómsveitin Albatross spilar svo á stórdansleiknum í Reiðhöllinni á laugardagskvöld, ásamt Sverri Bermann, Magna, Sölku Sól og Röggu Gísla.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×