Erlent

Lést á Uluru

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fjallið Uluru er heilagt í hugum ástralskra frumbyggja.
Fjallið Uluru er heilagt í hugum ástralskra frumbyggja. Vísir/getty
Japanskur ferðamaður lést er hann reynti að klífa fjallið helga Uluru í Ástralíu. Maðurinn, sem sagður er hafa verið 76 ára gamall, var kominn hálfa leið upp fjallið þegar hann gaf upp öndina. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur. Ekki er talið að dauða hans hafi borið að með saknæmum hætti, er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.

Alls hafa 37 einstaklingar látið lífið á Uluru frá miðri síðustu öld. Greint var frá því í lok síðasta árs að yfirvöld í Ástralíu hafi ákveðið að bannað verði að ganga á fjallið frá og með október 2019.

Frumbyggjar í Ástralíu hafa lengi kallað eftir því að slíku banni yrði komið á enda sé fjallið heilagt í þeirra augum.

Lögregluyfivöld héraðsins gáfu út að hinn japanski ferðamaður hafi verið sóttur af þyrlu og fluttur á næsta sjúkrahús. Hann hafi verið látinn þegar þangað var komið.

Rúmlega 250 þúsund manns heimsækja Uluru, sem áður var kallað Ayers Rock, á hverju ári en talið er að um 16 prósent þeirra reyni að ganga á fjallið. Síðasta dauðsfall í fjallinu, að frátöldum japanska ferðamanninum, var árið 2010.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×