Erlent

Grunaður um morð á átta nýburum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Heilbriðgisstarfsmaðurinn starfaði á Countess of Chester-sjúkrahúsinu.
Heilbriðgisstarfsmaðurinn starfaði á Countess of Chester-sjúkrahúsinu. BBC
Breskur heilbrigðisstarfsmaður hefur verið handtekinn vegna gruns um að hafa myrt átta börn við störf sín. Þá er hann jafnframt sagður hafa reynt að myrða sex nýbura til viðbótar.

Haft er eftir lögreglunni á vef breska ríkisútvarpsins að handtakan sé gríðarstórt skref í rannsókn málsins. Lögreglumenn hafa síðustu misseri reynt að varpa ljósi á andlát 17 barna á Countess of Chester-sjúkrahúsinu á eins árs tímabili, frá marsmánuði ársins 2015 fram í júlí árið 2016.

Þar að auki er talið að 15 börn hafi verið nær dauða en lífi áður en öðrum heilbrigðisstarfsmönnum tókst að hjúkra þeim aftur til heilsu.

Lögreglan vill lítið gefa upp um rannsóknina á þessari stundu, enda er hún sögð flókin og viðkvæm. Talsmaður lögreglunnar segir þó að hún sé í forgangi hjá embættinu og að það reyni að gera allt sem í valdi þess stendur til að komast til botns í málinu. Hann bætir við að ómögulegt sé að segja til um hvenær niðurstaðna verði að vænta eða hvort hinn handtekni heilbrigðisstarfsmaður verði ákærður fyrir morðin.

Forstöðumaður sjúkrahússins segir í samtali við breska ríkisútvarpið að það hafi ekki verið auðveld ákvörðun að kalla eftir lögreglurannsókn. Engu að síður hafi það verið talið nauðsynlegt til að svipta hulunni af þessu hræðilega máli. Hann segir að fæðingadeildin sé örugg í dag og opin öllum konum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×