Myndin er byggð á samnefndri teiknimyndasögu og verður bönnuð börnum að sögn Jóhannesar, ekki ólíkt Deadpool. „Þetta verður risastór Hollywood-mynd og verður svokallað R-rated eins og Logan og Deadpool. Þá verður ofbeldið grófara og talsmátinn frjálslegri.“
Samkvæmt fréttum mun Jóhannes fara með hlutverk Nicks Barris í myndinni en hann er sagður vera annað illmenni myndarinnar. Dave Wilson heldur um leikstjórn en þetta er fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem hann leikstýrir.
„Ég fer í lok júlí í þessar upptökur og verð að öllum líkindum í mánuð. Eftir þetta verkefni er ég að fara í aðra seríu á The Innocent, verði hún framleidd.“

Í flestum erlendum fréttum um hlutverkið er talað um Game of Thrones stjörnuna Jóhannesson. Sjálfur vill hann nú gera sem minnst úr því hlutverki. „Ég var nú bara í tveimur þáttum en það vegur greinilega þungt að vera í Game of Thrones,“ segir hann hress.
„Ég er búinn að vera í erlendum verkefnum undanfarin ár og er kominn á þann stað að geta aðeins valið úr. Ekki mikið en smá. Fyrst sagði ég já við öllu en ef verkefni lenda á sama tíma, hvort sem það er sjónvarpssería eða kvikmynd, þá get ég valið. Auðvitað er það mikið lúxusvandamál,“ segir hann.
Jóhannes var í fríi frá tökum í gær og slakaði á þó það væri hálf íslenskt veður í Suður-Afríku. „Það er rigning og 14 gráður sem er ekkert svo slæmt. Ég er þó alveg í stuttbuxum. Ætli ég fari ekki í stuttan göngutúr. Maður býr í frekar vernduðu umhverfi með girðingu í kring og ef maður fer út fyrir hliðið þá á maður á hættu að vera rændur og ég er lítið fyrir það.“