Fyrrum landsliðsfyrirliði Englendinga, Wayne Rooney, hefur trú á því að Englendingar geti farið alla leið og komið með bikarinn heim.
Rooney hætti að spila með landsliðinu í nóvember 2016 og hefur liðið gengið undir mikla endurnýjun á síðustu árum, lið Gareth Southgate er eitt það yngsta í keppninni.
„Það eru nokkur stór lið dottin út úr keppninni og þetta gæti orðið árið þar sem England kemst langt og vonandi vinnur keppnina,“ sagði Rooney. Það eru ávallt miklar væntingar gerðar til enska liðsins heima fyrir og þetta árið hefur liðið staðið undir þeim, að minnsta kosti til þessa.
„Fyrstu tveir leikirnir voru frábærir. Það er gaman að sjá svona marga unga leikmenn sem koma inn fullir af orku, pressa vel og skora mörk. Þetta eru spennandi tímar fyrir stuðningsmenn England.“
England tapaði síðasta leik sínum í riðlakeppninni fyrir Belgíu, úrslit sem margir telja góð fyrir enska liðið.
„Leikurinn gegn Belga var leikur þar sem enginn vildi vinna. Að tapa þessum leik gæti hjálpað Englendingum að komast lengra í keppninni, þeir eru réttu megin í drættinum.“
Fótbolti