Hann segir að það hafi ekki verið fyrr en degi fyrir hátíðarfundinn sem forsætisnefnd var tilkynnt um dagskrána.
Þingmenn Pírata ákváðu í gær að sniðganga hátíðarþingfund, sem blásið var til í tilefni af hundrað ára afmæli fullveldis Íslendinga, vegna ávarps Kjærsgaard sem umdeild er fyrir baráttu gegn fjölmenningu og Íslam í heimalandi sínu.
Semur spurningar fyrir Steingrím
Þegar blaðamaður náði tali af Jóni Þór var hann í óðaönn að semja spurningar til Steingríms J. Sigfússonar, forseta þingsins. Hann segir mikilvægt að Steingrímur varpi ljósi á ákvörðunarferlið því hann sé ánægður með það hvernig staðið var að fundinum.„Ég vil fá þetta á hreint frá honum. Með hvaða fyrirvara er venjan? Ef hann gerir vel þá hefði hann þurft að upplýsa okkur um þetta áður en hann býður henni. Hann upplýsti okkur hvorki um það áður né eftir. Ég er búinn að fara í gegnum allar fundargerðir forsætisnefndar, dagskrá fundanna með fylgiskjölum og ég á alla þessa pappíra. Ég skanna þetta og sendi á þingflokkinn og ég á líka mínar eigin fundargerðir sem ég rita á fundunum, ég hef setið þessa fundi og hvergi er minnst á þetta,“ segir Jón Þór.
Í tilkynningu frá 20. apríl kemur fram á vef Alþingis að Steingrímur J. Sigfússon, forseti þingsins, hefði fundað með Piu Kjærsgaard, forseta danska þjóðþingsins, og gert henni „grein fyrir dagskrá fullveldisársins og hátíðarfundar Alþingis […]“. Þá kemur fram í lok tilkynningarinnar að Pia muni koma til með að ávarpa samkomuna:
„Pia Kjærsgaard mun flytja sérstakt ávarp á Þingvallafundi og kveðju dönsku þjóðarinnar á fullveldisári Íslands.“

Aðspurðir segjast þeir hvorugir hafa „kveikt á perunni“ á forsætisnefndarfundi á þriðjudag.
„Nei, ég vissi ekki hver þessi kona var, ef ég á að segja alveg eins og er. Mig grunaði ekki að það væri til sá möguleiki í tilverunni að forseti Alþingis væri með einhverja umdeilda manneskju á hátíðarfundi þjóðarinnar, hundrað ára fullveldis, án þess þá að vera búinn að kynna sér hana vel og að boðið myndi ekki ólgu; það myndi ekki sundra okkur á þessum mikilvægu tímamótum,“ segir Jón Þór.
Ekki óhjákvæmilegt að bjóða Piu heldur rof hefðar
Þorsteinn tekur undir gagnrýni Jóns Þórs og segir að standa hefði mátt betur að ákvörðuninni. Það hefði alls ekki verið óhjákvæmilegt að bjóða forseta danska þingsins að halda ræðu á hátíðarfundi. Þorsteini rekur ekki minni til þess að Steingrímur hafi minnst á hlutverk Piu í hátíðardagskránni fyrr en í vikunni.„Ég held það megi alveg taka undir þá gagnrýni í ljósi þess að í fyrsta lagi var verið að rjúfa hefð. Það hefur ekki borið upp áður að utanaðkomandi einstaklingur ávarpi þingfund. Hefðin er sú að aðeins kjörnir þingmenn og forseti ávarpa fund í þingsal og mér skilst að það hafi aldrei komið til áður að annar en þessir aðilar ávarpi þingfund. Ég held það mætti taka undir þá gagnrýni að það hefði mátt vera talsvert vandaðri og ítarlegri umræða um það hvort þetta væri tilefni til þess að rjúfa þá hefð. Í ljósi þess hver gegndi embætti forseta danska þingsins þá hefði verið ástæða til þess að staldra við og skoða málið betur,“ segir Þorsteinn.
Þorsteinn segir brýnt að dreginn verðir lærdómur af þessari uppákomu. Það sé mikilvægt að vanda til verka við jafn merk tímamót og hundrað ára afmæli fullveldis Íslendinga.
„Þarna hefði verið full ástæða til að staldra við og ræða málin vandlega í ljósi þess að um afar umdeildan einstakling væri að ræða.“
Ekki náðist í Steingrím við vinnslu fréttarinnar.