Innlent

Pia í skýjunum með Íslandsferðina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Pia Kjærsgaard segir að það hafi verið sönn ánægja að hitta Vigdísi Finnbogadóttur.
Pia Kjærsgaard segir að það hafi verið sönn ánægja að hitta Vigdísi Finnbogadóttur. Pia Kjærsgaard
Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, segist vera stolt að hafa fengið að taka þátt í hátíðarþingfundinum, sem haldinn var á Þingvöllum í gær í tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslendinga.

Hátíðarhöldin mörkuðust öðru fremur af dræmri mætingu og mótmælum. Til að mynda sniðgengu Píratar fundinn með öllu vegna þátttöku hinnar umdeildu Kjærsgaard og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, yfirgaf hátíðarsvæðið undir ræðu Kjærsgaard, sem flutti ávarp fyrir hönd danska þingsins. Þá setti lítill hópur mótmælenda svip sinn á hátíðarhöldin en reglulega mátti heyra hróp og ýlfur í gjallarhorni meðan á fundinum stóð.

Sjá einnig: Hvatti Pírata til að láta Píu „fá það óþvegið“

Þetta virðist þó ekki hafa slegið Kjærsgaard út af laginu. Í færslu sinni á Facebook minnist þingforsetinn ekki orði á fyrrnefnd mótmæli. Þess í stað leggur hún áherslu á náttúrufegurð Íslands og hvernig hún hefur eflaust verið innblástur fyrir margar sögur um dularfullar verur. Þá þykir henni einnig mikið til aldurs Alþingis koma og segist hún ánægð með að hafa fengið að hitta Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, sem var viðstödd fundinn. Svo mörg voru þau orð.

Hátíðarþingfundurinn hefur ekki vakið teljandi athygli í Danmörku ef marka má umfjallanir danskra miðla. Ein grein hefur birst í Politiken um málið, sem Avisen hefur skrifað stutta frétt upp úr.

Færslu Kjærsgaard má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×