Það verður stór stund þegar Haraldur Franklín Magnús slær af teig á Opna breska meistaramótinu í golfi um klukkan níu í dag. Haraldur er fyrsti íslenski karlkylfingurinn sem keppir á risamóti í golfi.
Opna breska er elst af risamótunum fjórum í golfi en mótið í ár er það 147. í röðinni. Það fer að þessu sinni fram á Carnoustie-vellinum í Skotlandi en hann þykir einn sá erfiðasti á Bretlandseyjum. Þetta er í áttunda sinn sem Opna breska fer fram á Carnoustie. Þegar það var haldið síðast á vellinum, árið 2007, bar Írinn Pádraig Harrington sigur úr býtum.
Bandaríkjamaðurinn Jordan Spieth vann Opna breska í fyrra og hann er með í ár líkt og allir sterkustu kylfingar heims.
Sextán fyrrverandi meistarar á Opna breska eru með að þessu sinni, meðal annars Tiger Woods sem er að ná vopnum sínum á ný eftir erfið ár. Hann hefur unnið Opna breska í þrígang (2000, 2005 og 2006).
Haraldur tryggði sér sæti á Opna breska með því að lenda í 2. sæti á úrtökumóti í Kent á Englandi í byrjun mánaðarins. Í sætinu á eftir honum var ekki ómerkari kylfingur en Retief Goosen frá Suður-Afríku sem vann Opna bandaríska meistaramótið tvisvar á sínum tíma.
Haraldur hefur undanfarin tvö ár leikið á Nordic League-mótaröðinni, þeirri þriðju sterkustu í Evrópu. Hann er því að fara að takast á við sitt stærsta verkefni á ferlinum á Carnoustie. Fyrstu tvo keppnisdagana á Opna breska er Haraldur í ráshóp með James Robinson frá Englandi og Zander Lombard frá Suður-Afríku.
Alls hefja 156 kylfingar leik á Opna breska í ár. Að minnsta kosti 70 þeirra komast í gegnum niðurskurðinn. Mótinu lýkur á sunnudaginn.
