Innlent

Mótmæltu ákvörðun að veita Piu heiðurssess á hátíðarfundinum

Birgir Olgeirsson skrifar
Á þessum tímamótum bera Íslendingar ábyrgð á að taka skýra afstöðu gegn slíkum skilaboðum., segja listakonurnar sem héldu á hvítum fánum á Þingvöllum.
Á þessum tímamótum bera Íslendingar ábyrgð á að taka skýra afstöðu gegn slíkum skilaboðum., segja listakonurnar sem héldu á hvítum fánum á Þingvöllum. Vísir/Elín Margrét
Forsvarskonur Listahátíðarinnar Cycle héldu á lofti hvítum fánum á hátíðarfundi Alþingis sem haldinn var á Þingvöllum í dag í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands.

Listakonurnar eru Guðný Þóra Guðmundsdóttir og Sara S. Öldudóttir en fánarnir sem þær héldu á lofti eru eftir Unnar Arnar J. Auðarson. Verkið nefnist Daufur Skuggi en um er að ræða íslenska fánann sem saumaður er úr alhvítu efni.

Fánarnir hafa í senn ásýnd þjóðar- og friðarfána og eiga að vekja til umhugsunar um sjálfstæði, þjóðernishugmyndir, átök, hernað og mannúð.

„Íslendingar fagna 100 ára fullveldi og sjálfstæði á tímum þar sem að skilaboð þjóðernissinna, líkt og Piu Kjærsgaard og danska Þjóðarflokksins, hafa skotið nýjum rótum í heimspólitíkinni og ógna samheldni á meðal fólks. Á þessum tímamótum bera Íslendingar ábyrgð á að taka skýra afstöðu gegn slíkum skilaboðum.

Með gjörningnum minnumst við fórnarlamba herskárrar þjóðernishyggju, útlendingahaturs og kynþáttahyggju fyrr og síðar og mótmælum þeirri ákvörðun að veita talskonu slíkra viðhorfa sérstakan heiðurssess á hátíðarfundinum,“ segir í yfirlýsingu frá listakonunum Guðnýju Þóru Guðmundsdóttur og Söru S. Öldudóttur.


Tengdar fréttir

Táknrænar aðgerðir þingmanna á hátíðarfundi

Margir þingmenn úr hinum mismunandi stjórnmálaflokkum sýndu þá óánægju sína í ljós með því að bera sérstaka límmiða til höfuðs rasisma með áletruninni "Nej til racisme“ eða "Nei við kynþáttahyggju“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×