Erlent

Pútín lét Trump bíða eftir sér

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vladímír Pútín strýkur hér heimsmeistarabikarnum sem Frökkum var afhent í gærkvöldi.
Vladímír Pútín strýkur hér heimsmeistarabikarnum sem Frökkum var afhent í gærkvöldi. Vísir/getty
Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, lét bandaríska starfsbróður sinn bíða eftir sér í Helsinki í morgun. Pútín og Donald Trump, Bandaríkjaforseti, funda í Finnlandi í dag.

Fulltrúar beggja ríkja vonast til þess að fundurinn verði til að bæta samskipti stjórnvalda í Washington og Moskvu. Báðar sendinefndir eru sammála um að þau hafi ekki verið jafn slæm í áraraðir.

Trump kom til Helsinki í morgun en hann hefur varið síðustu dögum í opinberri heimsókn í Bretlandi. Pútín lenti hins vegar ekki í Helsinki fyrr en um klukkan 10 að íslenskum tíma í morgun. Fyrirhugað var að Rússlandsforseti yrði lentur um klukkan 9 og seinkaði honum því um klukkustund. Það er ekki eins og hann hafi þurft að ferðast langa vegalengd, Pútín var í Moskvu í gærkvöldi til að vera viðstaddur úrslitaleik heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Flugið frá Moskvu til Helsinki tekur að meðaltali eina klukkustund og 40 mínútur.

Sjá einnig: Bandaríkjaforseti hefur ekki miklar væntingar til fundarins við Pútín

Blaðamenn ytra greina frá því að Trump hafi vegna þessa þurft að hírast á hóteli sínu meðan hann beið eftir Pútín. Formleg dagskrá fundarins átti að hefjast núna klukkan 10 og fyrirhugað var að forsetarnir myndu halda blaðamannafund eftir hádegi. Hvort þeim fundi seinki vegna þessara vendinga er óljóst á þessari stundu. Talsmaður Hvíta hússins, Sarah Huckabee Sanders, hefur ekki viljað tjá sig um seinkunina.

Stjórnmálaskýrendur segja að þetta sé allt eftir bókinni. Pútín sé alræmdur fyrir að láta aðra þjóðarleiðtoga bíða eftir sér. Þetta sé einfaldlega úrræði sem Pútín beiti til að auka mikilvægi sitt. Til að mynda lét hann Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, bíða eftir sér í rúmar 4 klukkustundir árið 2014, álíka lengi og Viktor Janúkovitsj, forseta Úkraínu, árið 2012.

Sem fyrr segir lét hann Trump bíða í næstum klukkustund. Ratar hann því mitt á milli Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands (1 klukkustund) og Frans páfa (50 mínútur).


Tengdar fréttir

12 Rússar ákærðir vegna Mueller rannsóknarinnar

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti í dag um að 12 rússneskir ríkisborgarar hefðu verið ákærðir grunaðir um að hafa meðal annars brotist inn á tölvukerfi demókrataflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×