Þetta sagði Rio Ferdinand, fyrrverandi miðvörður Manchester United og enska landsliðsins, í myndveri ITV í Rússlandi í gær þar sem að úrslitaleikur HM 2018 var gerður upp. Frakkar unnu Króata, 4-2, og urðu meistarar í annað sinn.
„Hann er miklu þroskaðari sem fótboltamaður en aldurinn gefur til kynna,“ sagði Ferdinand en Mbappé varð í gærkvöldi fyrsti táningurinn sem skorar í úrslitaleik HM síðan að Pelé gerði það fyrir Brasilíu í Svíþjóð árið 1958.
Only the second teenager to have scored a goal in a #WorldCupFinal! Welcome to the club, @KMbappe - it's great to have some company! // O segundo adolescente a marcar um gol em uma final de #CopaDoMundo! Bem-vindo ao clube, Kylian - é ótimo ter a sua companhia! https://t.co/g8b2gLTy7B
— Pelé (@Pele) July 15, 2018
„Hann er gaurinn sem á eftir að standa upp á sviði og taka á móti Gullboltanum á næstu árum. Það er alveg klárt. Ég vona að mínir gömlu félagar í Manchester United séu á eftir honum,“ sagði Ferdinand.
Jürgen Klinsmann, fyrrverandi heimsmeistari með Þýskalandi, sagði Mbappé líta út fyrir að hafa verið í franska landsliðinu í áratug.
„Hann á eftir að verða svo miklu betri. Hann er líka að hrista vel upp í markaðnum. Nú er Ronaldo að fara til Juventus og Neymar er orðaður við önnur lið. Maður sér bara ekki hvar þetta endar hjá þessum strák,“ sagði Jürgen Klinsmann.