Erlent

NATO leiðtogar kannast ekki við að hafa lofað Trump neinni hækkun framlaga

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Aðrir leiðtogar NATO ríkjanna kannast ekki við lýsingar Trumps af fundinum.
Aðrir leiðtogar NATO ríkjanna kannast ekki við lýsingar Trumps af fundinum. Vísir/Getty
Leiðtogar Atlantshafsbandalagsins kannast ekki við að hafa samþykkt neina aukningu á útgjöldum til varnarmála á nýafstöðnum fundi þrátt fyrir yfirlýsingar Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

Trump fullyrti að leiðtogarnir hefðu orðið við kröfu sinni um að auka framlög til NATO og þannig hefði hann náð að styrkja bandalagið til frambúðar.

Hann hefur lengi lýst óánægju sinni með að Bandaríkin greiði stærstan hluta rekstrarkostnaðar NATO.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir hins vegar að það sé ekki allskostar rétt. Þvert á móti hafi leiðtogarnir ákveðið að halda sig við fyrri stefnu um að auka útgjöldin í áföngum til ársins 2024.

Að endingu muni flest ríkin ná því yfirlýsta markmiði að verja 2% af þjóðarframleiðslu sinni til varnarmála eins og lengi hafi staðið til.

Hins vegar hafi ákafi Trumps á fundinum vissulega gert hinum leiðtogunum ljóst hversu aðkallandi það væri að jafna greiðslubyrði aðildarríkjanna.

Leiðtogar Ítalíu, Kanada og Frakklands hafa allir sent frá sér yfirlýsingar þess efnis að ekki hafi verið fallist á nein ný útgjöld á fundinum með Trump. Aðeins hafi verið ákveðið að halda til streitu samkomulagi frá 2014 um aukningu útgjalda í skrefum.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir að lýsingar Trumps af leiðtogafundinum passi ekki við sína upplifun. Þetta hafi ekki verið mikill átakafundur heldur hafi allir talað af yfirvegun og virðingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×