Innlent

Hræddust svo björninn að þeir gleymdu að taka mynd

Gissur Sigurðsson skrifar
Þetta er ekki björninn sem um ræðir, heldur útlenskur myndabankabjörn.
Þetta er ekki björninn sem um ræðir, heldur útlenskur myndabankabjörn. Vísir/getty
Engar nýjar vísbendingar bárust í nótt um ferðir hvítabjarnar á Melrakkasléttu, í grennd við Raufarhöfn, sem greint var frá í gær. Þrír erlendir veiðimenn á svæðinu tilkynntu um kvöldmatarleytið í gær að þeir hafi séð eitthvað sem þeir töldu örugglega vera hvítabjörn og ekki þótti ástæða til að rengja þá.

Lögreglan á Norðurlandi eystra brást þegar við og sendi menn á vettvang og kom upplýsingum á framfæri við ferðamenn og heimamenn eftir því sem tök voru á.

Sjá einnig: Lögreglu tilkynnt um hvítabjörn á Melrakkasléttu

Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út sem leitaði í allt gærkvöld og til klukkan eitt í nótt, þegar hún snéri svo til Akureyrar. Lögreglan hvetur alla sem kunna að sjá til hvítabjarnarins að hringja þegar í neyðarlínuna.

Að sögn lögreglunnar er engin ástæða til að rengja tilkynnendur sem fyrr segir og hafi hún þegar rætt við þá. Þeir segja að þeim hafi orðið svo brugðið að í fáti sínu hafi þeir gleymt að taka mynd af dýrinu. Þess í stað tóku þeir til fótanna og hlupu allt að af tók niður í bílinn, sem þeir voru á, en það var um þriggja kílómetra leið.

Lögregla og aðrir viðeigandi aðilar munu endurmeta stöðuna á fundi klukkan átta. Þyrlan verður enn til taks á Akureyri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×