Erlent

„Sterkur grunur“ um íkveikju í Grikklandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gengið um brunarústir.
Gengið um brunarústir. Vísir/Getty
Yifrvöld í Grikklandi hafa „sterkan grun“ um að skógareldar sem hafa kostað minnst 83 manns lífið hafi verið af völdum íkveikju. Þetta kom fram í máli Nikos Toskast, ráðherra almannavarna þar í landi, sem ræddi við fjölmiðlamenn í morgun.

Áður hefur verið greint frá því að svo virðist sem eldarnir hafi kviknað samtímis á meira en 10 stöðum í austurhluta landsins. Toskas sagði að eldsvoði nærri Aþenu stuttu áður en skógareldarnir brutust út mætti einnig rekja til íkveikju en þar hefði enginn slasast.

Þar að auki hefðu loftslagsbreytingar orðið til þess að svæðið var þurrara og vindhraðinn meiri. Það hefði verið til eins fallið að auðvelda útbreiðslu eldanna.

Sjá einnig: Ráðherra segir íbúa hafa gert illt verra með því að byggja ólöglega

Varnarmálaráðherra Grikklandi sagði í gær að íbúar nærri hamfarasvæðinum hafi gert illt verra með því að byggja ólöglega.

Hann neitaði að sama skapi öllum ásökunum um að yfirvöld hefðu ekki gert sitt til að vernda borgarana. Íbúarnir hefðu sjálfir lokað vegum að ströndinni og þannig torveldað rýmingu bæjanna.

Eldarnir brutust út á mánudag og urðu strandbæir og vinsælir ferðamannastaðir verst úti í eldunum. Um 60 manns eru enn á spítala vegna eldanna, um ellefu þeirra á gjörgæslu. Tuga er enn saknað.


Tengdar fréttir

Grísku sjávarþorpi líkt við Pompeii

Íbúar þurftu að hlaupa undan eldhafi og höfðu ekki tíma til að bjarga neinu öðru en sjálfum sér. Mörgum tókst þó ekki að bjarga sér og er tala látinna komin í 80.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×