Rian Johnson, leikstjóri The Last Jedi, hefur eytt um tuttugu þúsund gömlum tístum af Twitter-reikningi sínum. Í kjölfar fregnanna hófu netverjar að velta því fyrir sér hvort Twitter-tiltekt Johnson tengdist brottrekstri leikstjórans James Gunn.
Gunn var rekinn sem leikstjóri þriðju myndarinnar um ofurhetjuteymið Guardians of the Galaxy á dögunum.Ákvörðunin um brottreksturinn var tekin eftir að umdeild tíst kvikmyndagerðarmannsins komust í umferð. Brottrekstur hans hefur mætt töluverðri andstöðu og þá hafa stjörnur Guardians-kvikmyndanna lýst yfir stuðningi við Gunn.
Netmiðillinn The Mary Sue vakti athygli á máli Johnson á vef sínum í gær. Þar var því velt upp hvort brottrekstur Gunn hefði orðið að fordæmi fyrir starfsbræður hans í Hollywood, sem og aðra í bransanum. Þá voru einnig leiddar að því líkur að Disney, sem á höfundarréttinn á bæði Guardians of the Galaxy og Starwars-kvikmyndunum, beini því nú til starfsmanna sinna að þurrka allt „umdeilt“ út af samfélagsmiðlum.
Johnson hefur þó þvertekið fyrir þessar vangaveltur. Hann svaraði Mary Sue sjálfur á Twitter og sagðist ekki hafa fengið neinar skipanir að ofan um að eyða umræddum tístum, en viðurkenndi þó að hann væri uggandi yfir „tröllum“ sem fari gaumgæfilega yfir samfélagsmiðlafærslur mörg ár aftur í tímann í þeim tilgangi að hanka menn á gömlum syndum.
Lífið
Leikstjóri The Last Jedi eyðir 20 þúsund gömlum tístum og vekur upp samsæriskenningar
Tengdar fréttir
The Last Jedi verður sú lengsta í Stjörnustríðsbálknum
Rúmlega níu mínútum lengri en næsta mynd.
Leikstjóri The Last Jedi svarar ósáttum Star Wars aðdáendum
Rian Johnson, leikstjóri nýjustu Star Wars myndarinnar, The Last Jedi, virðist hafa fengið nóg af ósáttum Star Wars aðdáendum sem hafa gert athugasemdir við eitt af mikilvægustu atriðum myndarinnar.
James Gunn rekinn sem leikstjóri Guardians of the Galaxy 3
Gömul tíst um barnaníð og nauðganir gerðu útslagið.